Athugasemdir við verktakagreiðslur Háskóla Íslands

Skýrsla til Alþingis

15.02.2010

Ríkisendurskoðun gagnrýnir verktakagreiðslur Háskóla Íslands til fastráðinna starfsmanna sinna fyrir kennslu sem skilgreind er sem endurmenntun. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um þóknanir fyrir verktöku sem Háskóli Íslands hefur undanfarin ár greitt nokkrum fastráðnum akademískum starfsmönnum sínum í fullu starfi. Um er að ræða greiðslur fyrir kennslu sem skilgreind er sem endurmenntun og fer fram utan venjulegs vinnutíma. Árið 2009 námu slíkar greiðslur til þeirra 23 aðila sem hæstar þóknanir fengu alls um 84 m.kr.

Ríkisendurskoðun telur að fyrirkomulag þessara verktakagreiðslna sé um margt óeðlilegt og hefur Háskólinn lýst vilja til að taka það til skoðunar. Að mati Ríkisendurskoðunar ber umrædd verktakavinna öll einkenni venjulegrar launavinnu þar sem þeir sem hana stunda fá aðstöðu, nauðsynleg aðföng og aðstoð frá starfsmönnum skólans endurgjaldslaust. Í skýrslunni er skólinn hvattur til að fylgja reglum skattyfirvalda um mun verktakavinnu og launþegavinnu.

Einnig þarf skólinn að mati Ríkisendurskoðunar að tryggja gagnsæi og jafnræði við val á kennurum sem sinna endurmenntunarnámi. Stofnunin telur eðlilegt að jafn viðamikil störf og hér um ræðir séu auglýst svo að allir sem hafa getu og vilja til að sinna þeim sitji við sama borð.

Þá telur Ríkisendurskoðun að Háskóli Íslands þurfi að herða á reglum um helgun í starfi til að tryggja að viðamikil aukastörf akademískra starfsmanna, jafnt innan sem utan skólans, komi ekki niður á vinnu þeirra fyrir hann.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um verktakagreiðslur við Háskóla Íslands er önnur í röðinni af nokkrum sem stofnunin vinnur að og greina frá niðurstöðum úttektar á innkaupamálum ríkisins. Áður er komin út skýrsla um innkaupastefnu ráðuneytanna.

Sjá nánar