Hægt að auka hagkvæmni innkaupa hjá ríkinu

Skýrsla til Alþingis

10.02.2010

Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytin þurfi að gefa innkaupamálum aukið vægi í starfsemi sinni, setja sér tímasett og mælanleg markmið á þessu sviði og fylgjast með árangri undirstofnana sinna. Undanfarin ár hafa ráðuneyti og stofnanir í A-hluta ríkissjóðs keypt vörur, þjónustu og verklegar framkvæmdir fyrir um 100 ma.kr. á ári. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að þessu fé sé varið í samræmi við lög og reglur og á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt. Í nýrri skýrslu stofnunarinnar eru birtar niðurstöður úttektar hennar á innkaupastefnu ráðuneytanna en þau bera mikla ábyrgð við að tryggja að innkaup undirstofnana þeirra séu hagkvæm og í samræmi við þær leikreglur sem stjórnvöld hafa sett.

Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa ráðuneytin að huga betur en hingað til að því hvernig þau og stofnanir sem undir þau heyra standa að innkaupum. Jafnframt eru ráðuneytin hvött til að setja sér og undirstofnunum sínum tímasett og mælanleg markmið um hagkvæm og árangursrík innkaup og fylgjast með árangrinum.

Fram kemur að ekki hafi öll markmið innkaupastefnu ríkisins, sem sett var 2002, náðst og óvíst sé með önnur þar sem trausta mælikvarða á árangur hafi skort. Er fjármálráðuneytið hvatt til að ráða bót á þessu en það hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með árangri innkaupastefnunnar. Þá telur Ríkisendurskoðun að merkja eigi sérstaklega innkaup í bókhaldi ríkisins eftir innkaupaaðferð til að auðvelda ráðuneytum og stofnunum að meta ávinning mismunandi aðferða.

Samkvæmt innkaupastefnu ríkisins eiga öll ráðuneyti og stofnanir að vera áskrifendur að rammasamningum Ríkiskaupa sem eiga að stuðla að hagkvæmum innkaupum þeirra. Í skýrslunni kemur fram að engu að síður heimili mörg ráðuneyti að stofnanir sneiði fram hjá þessum samningum telji þær það „hagkvæmt“ af einhverjum ástæðum. Mikilvægt sé að fjármálaráðherra setji samræmdar reglur um slík frávik.

Í skýrslunni er fjármálaráðuneytið enn fremur hvatt til þess að kynna innkaupastefnu ríkisins betur fyrir hlutaðeigandi aðilum og gera skýra framkvæmdaáætlun um rafræn innkaup sem unnið hefur verið að því að innleiða hjá ríkinu um nokkurt skeið. Þá er fjármálaráðherra hvattur til að setja samræmdar siðareglur um opinber innkaup sem nái til allra ráðuneyta  og stofnana.

Þess má að lokum geta að skýrslan er sú fyrsta af nokkrum sem stofnunin mun gefa út og fjalla um niðurstöður viðamikillar úttektar á innkaupamálum ríkisins.

Sjá nánar