Nýta má betur framlög til útflutningsaðstoðar og landkynningar

Skýrsla til Alþingis

11.12.2009

Ríkisendurskoðun telur að öll verkefni ríkisvaldsins á sviði útflutningsaðstoðar og landkynningar eigi að heyra undir fyrirhugaða Íslandsstofu. Einnig þurfi að kveða skýrt á um ábyrgð utanríkisráðherra á málaflokknum í lögum. Þá þurfi að móta heildarstefnu um málaflokkinn og mæla árangur hennar.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að með útflutningsaðstoð og landkynningu sé átt við störf sem miða að því að styrkja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, þ.e. að örva útflutning á vöru og þjónustu og laða til landsins erlenda fjárfesta og ferðamenn. Hingað til hafi þessi verkefni verið á höndum margra, ólíkra aðila og ekki hafi verið litið á þau sem sérstakan málaflokk. Það sé hins vegar mat Ríkisendurskoðunar að svo eigi að gera.

Ríkisendurskoðun telur að frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi um stofnun Íslandsstofu, sem ætlað er að taka við verkefnum á sviði útflutningsaðstoðar og landkynningar, sé mikil framför en að ganga þurfi lengra. Brýnt sé að sameina öll verkefni ríkisvaldsins á þessu sviði undir stofnunina. Þá þurfi að skilgreina stöðu Íslandsstofu í stjórnkerfinu betur en gert er í frumvarpinu og kveða skýrt á um ábyrgð utanríkisráðherra á málaflokknum.

Í skýrslunni er lagt til að Íslandsstofa móti og útfæri heildarstefnu fyrir málaflokkinn í samráði við ráðuneyti, atvinnulíf og hagsmunaaðila. Mikilvægt sé að tryggja að fjármunum verði ráðstafað í samræmi við stefnuna og árangur af framkvæmd hennar verði metinn reglulega.

Fram kemur að á undanförnum árum hafi skipulagi útflutningsaðstoðar og landkynningar verið breytt í Bretlandi, Noregi og Danmörku en hafi áður svipað til núverandi skipulags þessa málaflokks hér á landi. Markmið breytinganna hafi m.a. verið að einfalda skipulagið og skerpa á ábyrgð. Að mati Ríkisendurskoðunar ættu íslensk stjórnvöld að kynna sér vandlega skipulag og stefnumótun nágrannalandanna á þessu sviði.

Sjá nánar