Skýrsla um endurskoðun ríkisreiknings 2008

Skýrsla til Alþingis

11.12.2009

Ríkisendurskoðun gerir ekki verulegar athugasemdir við reikningsskil stofnana fyrir árið 2008 en bendir á veikleika í innra eftirliti hjá allmörgum þeirra. Einnig gagnrýnir hún útgjöld stofnana umfram fjárheimildir og mismunandi fyrirkomulag greiðslna fyrir yfirvinnu. Þá telur hún að ýmsum spurningum er varða lánveitingar Seðlabankans til fjármálafyrirtækja á síðasta ári sé ósvarað.Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga stofnana, fyrirtækja og sjóða ríkisins. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis. Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2008 kemur fram að ekki eru gerðar verulegar athugasemdir við reikningsskil stofnana fyrir síðasta ár. Hins vegar er bent á tiltekna veikleika í innra eftirliti hjá allmörgum þeirra.

Í skýrslunni er bent á að í árslok 2008 voru 58 fjárlagaliðir með uppsafnaðan halla umfram 4% af fjárheimild og 214 með uppsafnaðan tekjuafgang umfram sama mark. Ríkisendurskoðun hefur mörg undanfarin ár vakið athygli á hallarekstri stofnana og hvatt stjórnvöld til að bregðast við í samræmi við ákvæði laga og reglna. Þá hefur stofnunin hvatt til þess að mótaðar verði skýrar reglur um meðferð ónýttra fjárheimilda.

Samkvæmt athugun Ríkisendurskoðunar hefur stór hluti ríkisstofnana ekki fellt greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu að fullu inn í föst laun þrátt fyrir að kjarasamningar frá árinu 2006 mæli fyrir um það. Hjá þessum stofnunum er þó mismunandi hve stór hluti starfsmanna fær sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu og fyrir hve margar vinnustundir. Ríkisendurskoðun telur að þetta valdi því að launakerfi ríkisins sé mjög ógagnsætt.

Fjallað er um tap Seðlabanka Íslands vegna veðlána hans til fjármálafyrirtækja á árinu 2008. Fyrir liggur að hinir föllnu bankar öfluðu sér lausafjár með lánum frá minni fjármálafyrirtækjum sem aftur fengu lán frá Seðlabankanum gegn ótryggðum bréfum. Í ágúst 2008 herti bankinn reglur sínar um veðtryggingar og setti þar með skorður við þessari leið bankanna til að útvega sér lausafé. Að mati Ríkisendurskoðunar má spyrja af hverju Seðlabankinn brást ekki fyrr við enda hefði það getað dregið úr því tjóni sem hann og ríkissjóður urðu fyrir vegna bankahrunsins.

Í skýrslunni er fjallað um þann mikla viðsnúning sem varð í rekstri ríkisins á síðasta ári miðað við árin á undan sem rekja má til bankahrunsins. Eftir að hafa skilað tekjuafgangi fjögur ár í röð, 2004–2007, varð um 220,5 ma.kr. halli á rekstrinum árið 2008 og hefur hann aldrei verið meiri í sögu lýðveldisins. Heildargjöld ríkisins hækkuðu um 73% í krónum talið frá árinu 2007 en tekjur drógust saman um tæplega 3%. Þá jukust langtímaskuldir ríkisins verulega eða sem nemur 127,5%.

Sjá nánar