Mat á framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði þessa árs

Skýrsla til Alþingis

27.10.2009

Útlit er fyrir að tekjur ríkisins á þessu ári verði nokkru hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir en að halli á rekstrinum verði mun meiri. Almennt hefur ekki verið farið að tilmælum Ríkisendurskoðunar frá því um mitt ár um að tekið verði á rekstrarvanda stofnana. Ríkisendurskoðun gagnrýnir að þótt langt sé liðið á árið hefur enn ekki verið tekin samræmd ákvörðun um meðferð ónýttra fjárheimilda frá árinu 2008.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði þessa árs kemur fram að heildartekjur ríkisins hafi verið nokkru lægri á tímabilinu en áætlað var. Hins vegar hafi heildargjöld reynst nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Ný áætlun fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að tekjur ársins í heild verði rúmum 4 ma.kr. meiri en reiknað var með í upphafi árs og telur Ríkisendurskoðun líkur á að þetta gangi eftir. Aftur á móti er nú gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði mun meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir eða 182 ma.kr. í stað 153 ma.kr. Að mati Ríkisendurskoðunar er ljóst að aðgerðir um mitt ár sem ætlað var að hemja kostnað hafa ekki borið tilætlaðan árangur.

Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um stöðu 19 stofnana sem glímt hafa við erfiðleika í rekstri og/eða hafa þurft að mæta nýjum áskorunum vegna efnahagssamdráttarins. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur rekstur þriggja þeirra – Háskólans á Akureyri, Námsmatsstofnunar og Raunvísindastofnunar Háskólans – verið tekinn föstum tökum og stefnir í að útkoma ársins verði mun betri hjá þessum stofnunum en útlit var fyrir um mitt ár. Aðrar stofnanir í þessum hópi eiga erfitt með að láta enda ná saman og stefnir í að meirihluti þeirra verði rekinn með halla á árinu. Af þessum stofnunum telur Ríkisendurskoðun að staðan sé einna verst hjá Landspítalanum, Landbúnaðarháskólanum og Hólaskóla. Almennt hefur ekki verið farið að tilmælum Ríkisendurskoðunar frá því um mitt þetta ár um að tafarlaust verði brugðist við til að bæta rekstur stofnana í vanda.

Ráðuneytin hafa gefið stofnunum mismunandi skilaboð um hvernig farið skuli með ónýttar fjárheimildir frá árinu 2008. Sum ráðuneytin settu þegar í upphafi ársins ákveðnar skorður við nýtingu slíkra heimilda meðan önnur leyfðu að þær væru fluttar óskertar milli ára. Þótt komið sé fram í október hafa stjórnvöld enn ekki samræmt ákvarðanir sínar í þessu efni. Í skýrslunni er þessi seinagangur gagnrýndur og bent á að ekki sé raunhæft að skerða svigrúm stofnana til að nota ónýttar heimildir nú þegar langt er liðið á árið. Ríkisendurskoðun hefur áður lagt til að mótaðar verði skýrar reglur um meðferð ónýttra fjárheimilda og eru þau tilmæli ítrekuð í skýrslunni.

Að auki er í skýrslunni fjallað um lántökur og ábyrgðir ríkissjóðs á þessu ári, kaup og sölu eigna o.s.frv. Þá er þar lagt til að hugað verði að breytingum á fjárreiðulögum m.a. til þess að auka festu og aga í fjármálastjórn ríkisins. Enn fremur er þar birt umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009. Loks má nefna að hér er á ferðinni fyrsta skýrsla Ríkisendurskoðunar sem eingöngu er gefin út á rafrænu formi en stofnunin ákvað nýlega að hætta prentun skýrslna í sparnaðarskyni.

Sjá nánar