Úttekt á fjárhagsstöðu 50 ríkisstofnana

Skýrsla til Alþingis

25.06.2009

Fjárlög munu ekki halda hjá um fjórðungi þeirra stofnana sem úttekt Ríkisendurskoðunar náði til. Hjá átta stofnunum er staðan svo slæm að bregðast þarf tafarlaust við. Í byrjun þessa árs ákvað Ríkisendurskoðun að gera sérstakt átak í eftirliti með fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana. Meðal annars voru gæði rekstraráætlana könnuð hjá völdum stofnunum og eru niðurstöður birtar í skýrslunni „Fjármálastjórn 50 ríkisstofnana“.

Að mati Ríkisendurskoðunar er líklegt að fjárlög muni halda hjá 28 stofnunum af 50 en ekki að óbreyttu hjá 12. Þá sé ekki hægt að meta líkur á því að fjárlög haldi hjá 10 stofnunum. Ólíðandi sé að í byrjun maí höfðu ráðuneyti ekki samþykkt áætlanir 5 stofnana.

Ríkisendurskoðun telur að hjá 8 stofnunum sé staðan svo slæm að ástæða sé til að bregðast tafarlaust við. Verst sé hún hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Námsmatsstofnun. Halli þessara stofnana sé svo mikill að ekki verði unnið á honum innan eðlilegra tímamarka nema með því að skerða verulega þjónustu, veita þeim viðbótarfé eða blöndu af hvoru tveggja. Verði ákveðið að skerða þjónustu telur Ríkisendurskðun að menntamálaráðuneytið þurfi að gefa skýr fyrirmæli um forgangsröð.

Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að stofnanir með uppsafnaðan halla umfram 4% af fjárheimild hagræði í rekstri þannig að hann verði greiddur upp á árinu. Nemi uppsafnaður halli stofnunar meira en 10% af fjárheimild eigi viðkomandi ráðuneyti að meta ábyrgð forstöðumanns á þeirri stöðu áður en það tekur ákvörðun um hugsanlega viðbótarfjárveitingu. Ýmsar fleiri ábendingar er að finna í skýrslunni en þess má geta að hún er önnur tveggja skýrslna Ríkisendurskoðunar sem birta niðurstöður viðamikillar úttektar á fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana. Áður er komin út skýrslan „Fjármálastjórn ráðuneyta og skil rekstraráætlana“.

Sjá nánar