Stjórnsýsluúttekt á Þjóðleikhúsinu

Skýrsla til Alþingis

21.11.2008

Þjóðleikhúsið sinnir allvel lögboðnum verkefnum sínum en fjárhagsstaða þess er erfið. Brýnt er að leikhúsið sníði sér stakk eftir vexti og leiti leiða til að auka tekjur sínar og minnka kostnað. Þá þarf að bæta áætlanagerð og árangursstjórnun þess.

https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar?id=721Samkvæmt lögum ber Þjóðleikhúsinu að leggja stund á sviðslistir, glæða áhuga landsmanna á þeim og stuðla að þróun þeirra. Þá skal það efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning og meðferð íslenskrar tungu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lagt mat á hvernig leikhúsið sinnir þessum verkefnum og ýmsar ábendingar settar fram um úrbætur í stjórnun þess og rekstri.

Að mati Ríkisendurskoðunar sinnir Þjóðleikhúsið allvel lögboðnum verkefnum sínum og hefur náð mælanlegum markmiðum. Hins vegar hefur stjórnendum ekki tekist að láta enda ná saman í rekstrinum. Undanfarin ár hefur aðsókn að leiksýningum ekki aukist í takt við fjölgun uppfærðra leikverka og sýninga. Kostnaður hefur þannig vaxið hlutfallslega meira en tekjur og nam uppsafnaður halli um 70 m.kr. í árslok 2007.

Ríkisendurskoðun telur brýnt að Þjóðleikhúsið haldi rekstri sínum innan ramma fjárlaga. Mikilvægt er að ná betra jafnvægi milli tekna og gjalda og greiða niður skuldir. Í þessu skyni þarf leikhúsið að leita leiða til að auka aðsókn að leikverkum sínum og þar með tekjur. Þá er brýnt að verkbókhald og áætlanagerð verði bætt sem og daglegt eftirlit með framfylgd áætlana.

Virkja þarf betur árangursstjórnunarsamning Þjóðleikhússins og menntamálaráðuneytis sem stjórn- og eftirlitstæki. Leikhúsinu ber að standa skil á tímasettum verkefnum og ráðuneytinu að fylgja því eftir að svo sé gert og meta árangur starfseminnar. Eins er mikilvægt að Þjóðleikhúsið efli árangursmælingar sínar og endurmeti mælanleg markmið sín með vissu millibili.

Að auki eru í skýrslunni settar fram ýmsar aðrar ábendingar sem m.a. lúta að hlutverki þjóðleikhúsráðs, skipuriti, húsnæðismálum og tækjabúnaði.

Í skýrslunni eru birtar niðurstöður könnunar sem Capacent Gallup vann fyrir Ríkisendurskoðun á viðhorfi almennings til Þjóðleikhússins.

Sjá nánar