Skýrsla um endurskoðun ríkisreiknings 2007

Skýrsla til Alþingis

13.11.2008

Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við ýmis atriði bókhalds og fjárreiðna hjá opinberum aðilum í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings 2007. Flestar þessara athugasemda hafa birst áður í skýrslum stofnunarinnar.

Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar er að endurskoða ríkisreikning sem birtir upplýsingar um afkomu og fjárhagsstöðu stofnana, fyrirtækja og sjóða ríkisins. Líkt og fyrri ár fólst endurskoðunin aðallega í að votta áreiðanleika upplýsinga í reikningsskilum þessara aðila, auk þess sem innra eftirlit þeirra var kannað og rekstur borinn saman við fjárheimildir.

Almennt telur Ríkisendurskoðun að bókhald og fjárreiður stofnana séu í góðu horfi. Engu að síður gerði stofnunin sem fyrr athugasemdir við framkvæmd fjárlaga hjá mörgum stofnunum, auk annarra athugasemda.

Samtals stóðu 55% fjárlagaliða í A-hluta ríkissjóðs með afgang en 15% með halla umfram 4% af fjárheimild í árslok 2007. Ríkisendurskoðun hefur margsinnis hvatt stjórnvöld til að taka á hallarekstri stofnana í samræmi við ákvæði fjárreiðulaga og reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Einnig hefur stofnunin lagt til að skýrar reglur verði settar um meðferð ónýttra fjárheimilda. Að auki voru gerðar ýmsar aðrar athugasemdir, t.d. við nokkrar stofnanir sem fjármögnuðu hallarekstur með yfirdrætti á bankareikningi en slíkt er óheimilt. Þá telur Ríkisendurskoðun að skýrari reglur vanti um ýmis bókhaldsatriði, m.a. um staðfestingar reikninga og skýringar á fylgiskjölum.

Ríkisendurskoðun kannaði fyrirkomulag upplýsingatæknimála hjá allmörgum stofnunum. Fram kom að nokkrar stofnanir með sérsmíðuð upplýsingakerfi höfðu ekki látið meta innri eftirlisþætti þeirra. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að allar stofnanir með slík kerfi láti meta þessa þætti. Þá leiddi könnun á fyrirkomulagi ræstingar og öryggisþjónustu í ljós að hjá mörgum stofnunum sem hafa útvistað þessum verkefnum geta viðkvæm gögn legið á borðum starfsmanna. Brýnt er að allar stofnanir sem þannig er ástatt um afli trúnaðaryfirlýsinga frá verktökum.

Í skýrslunni áréttar Ríkisendurskoðun athugasemdir sínar frá fyrri árum er varða áætlanir í virðisaukaskatti, skilgreiningu sértekna hjá stofnunum og löggjöf um skattastyrki. Þá er einnig ítrekuð ábending til Fjársýslu ríkisins um að efla yfirferð og afstemmingar viðskiptakrafna sem ekki hreyfast milli ára. Loks áréttar stofnunin þá skoðun sína að fella eigi Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkissjóðs. Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.

Sjá nánar