Samgönguframkvæmdir. Stjórnsýsluúttekt

Skýrsla til Alþingis

26.06.2008

Ríkisendurskoðun leggur til að stjórnvöld kanni möguleika á að breyta stofnanaskipan samgöngumála þannig að sjálfstæðri stofnun verði falið að annast alla stjórnsýslu á því sviði. Annarri stofnun verði falin umsýsla allra samgönguframkvæmda og þeirri þriðju að annast rekstur og viðhald samgöngumannvirkja. Óháð slíkum breytingum þarf jafnframt að þróa reglur og aðferðir sem stuðla að hagkvæmari og árangursríkari samgönguframkvæmdum en verið hafa.
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar „Samgönguframkvæmdir“ beinist bæði að skipulagi og stjórnun Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar Íslands og að samgönguframkvæmdum þeirra og Flugstoða ohf. Auk þess er horft til hugsanlegra breytinga á stofnanaskipan samgöngumála sem tekur til áðurnefndra stofnana auk Flugmálastjórnar og Umferðarstofu.

Í skýrslunni kemur fram að skipurit Vegargerðarinnar og Siglingastofnunar eru í meginatriðum rökrétt þótt Vegagerðinni hafi ekki gengið sem skyldi að innleiða skipurit sitt. Þá hefur rekstur stofnananna nær undantekningarlaust verið innan fjárheimilda. Báðar hafa stofnanirnar einnig lagt áherslu á að byggja upp gæðakerfi og hefur Siglingastofnun náð því að fá hluta starfseminnar gæðavottaðan. Á hinn bóginn telur Ríkisendurskoðun að samgönguáætlunum sé breytt of mikið og of ört og komi það niður á markvissum undirbúningi framkvæmda. Þá þurfi að leggja aukna áherslu á að meta og taka mið af arðsemi framkvæmda og halda betur utan um kostnaðaráætlanir á öllum undirbúningsstigum þeirra.

Ríkisendurskoðun leggur til að stjórnvöld kanni möguleika á að breyta stofnanaskipan samgöngumála þannig að sjálfstæðri stofnun verði falið að annast alla stjórnsýslu á sviði samgöngumála. Taki hún við stjórnsýsluverkefnum Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar auk verkefna Flugmálastjórnar og Umferðarstofu. Þá verði annarri stofnun falin umsýsla allra samgönguframkvæmda, þ.e. að móta og undirbúa samgönguáætlun og að sjá um framkvæmd áætlunarinnar eftir samþykkt hennar á Alþingi, m.a. hönnun mannvirkja, gerð kostnaðaráætlana, útboð framkvæmda og eftirlit með þeim. Sú stofnun taki við verkefnum frá Siglingastofnun, Vegagerðinni, Flugstoðum ohf. og samgönguráðuneytinu. Að lokum verði ríkisfyrirtæki falið að annast rekstur og viðhald samgöngumannvirkja, þ.e. vegakerfisins og flugvalla, auk tengds búnaðar, s.s. vita og upplýsingakerfa sem stýra umferð flugvéla og skipa. Það taki við verkefnum frá Siglingastofnun, Vegagerðinni og Flugstoðum ohf.

Óháð slíkum breytingum telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að huga að reglum og aðferðum sem stuðlað gætu að hagkvæmari og árangursríkari samgönguframkvæmdum en nú tíðkast. Meðal slíkra atriða má nefna agaðri framkvæmd samgönguáætlunar til að minnka frávik frá henni og vandaðri greiningu ólíkra valkosta, þar sem m.a. væri tekið tillit til stofnkostnaðar við framkvæmdina, viðhalds- og rekstrarkostnaðar, afkastagetu vegar, styttingu ferðatíma, veðurfarsaðstæðna, slysatíðni og byggðasjónarmiða. Þá þyrfti að setja skýrari staðla um vegagerð og leitast við að fylgja þeim. Sömuleiðis þyrfti að nýta stærðarhagkvæmni betur en gert hefur verið. Að lokum telur Ríkisendurskoðunar að ábyrgð á mengunarvörnum ætti að vera hjá Siglingastofnun eða nýrri stjórnsýslustofnun samgöngumála ef henni verður komið á fót.

Sjá nánar