Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

Skýrsla til Alþingis

23.05.2008

Ríkisendurskoðun telur að fag- og fjárhagsleg markmið stjórnvalda með sameiningu allrar lög- og tollgæslu á Suðurnesjum árið 2007 hafi náðst að hluta til. Um leið tekur hún undir tillögur dómsmálaráðuneytisins um framtíðarskipulag þessara mála. Vel komi þó til álita að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með sérstökum þjónustusamningum. Með breyttri skipan þurfi stjórnvöld einnig að taka afstöðu til umfangs lög- og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þá telur Ríkisendurskoðun að dómsmálaráðuneytið og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi ákveðið að leysa ágreining sinn og vinna sameiginlega að fyrirhuguðum breytingum á skipulagi og rekstri embættisins.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Lögreglustjóranum á Suðurnesjum er bent á að ýmislegt hafi áunnist við sameiningu allrar lög- og tollgæslu á Suðurnesjum árið 2007, m.a. hafi hlutfallslegur kostnaður við yfirstjórn minnkað og skilvirkni við afgreiðslu sakamála aukist. Löggæsla hefur hins vegar ekki orðið sýnilegri. Þá telur stofnunin að fjárhagsvanda embættisins megi einkum rekja til aukinna umsvifa þess við öryggisgæslu, fíkniefnaeftirlit og verkefni tengdum Atlantshafsbandalaginu. Þessi auknu umsvif voru að hluta til með vitund og vilja utanríkisráðuneytisins, án þess þó að fjárveitingar ykjust að sama skapi. Við brottför varnarliðsins dró einnig úr sértekjum embættisins án þess að kostnaður minnkaði til samræmis.

Ríkisendurskoðun tekur undir tillögur dómsmálaráðuneytisins um framtíðarskipulag lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum. Þar er gert ráð fyrir að færa frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum forræði þeirra verkefna á sviði tolla- og flugöryggismála sem heyra undir önnur ráðuneyti svo að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð vegna þeirra fari saman. Embættið mun þá eingöngu sinna lögreglumálum, þ.m.t. landamæraeftirliti og öðrum löggæsluverkefnum á Keflavíkurflugvelli.

Ríkisendurskoðun hefur áður vakið máls á því að stjórnvöld kanni til hlítar möguleika á því að breyta núverandi skipan mála á þann veg sem tillögur ráðuneytisins ganga út á, sérstaklega tollamála, og taki þær breytingar þá til allra sýslumanns- og lögregluembætta landsins sem annast bæði lögreglu- og tollamál. Stofnunin telur þó vel koma til álita að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með sérstökum þjónustusamningum þar sem umfang þjónustunnar og greiðslur fyrir hana eru skilgreind.

Ríkisendurskoðun bendir jafnframt á að með breyttri stjórnun og fjármögnun verkefna þurfi stjórnvöld að taka afstöðu til þess hversu mikla lög- og tollgæslu þarf vegna starfseminnar á Keflavíkurflugvelli. Verði niðurstaðan að halda sem næst óbreyttum mannafla er ljóst að auka þarf fjárveitingar til löggæsluverkefna svo að reka megi þau hallalaust án frekari sparnaðar. Stofnunin telur einnig nauðsynlegt að kanna til hlítar hvers vegna launakostnaður á stöðugildi er nokkru meiri hjá Lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli en hjá öðrum lögreglu- og tollstjóraembættum, enda er ekki nema að hluta tekið tillit til þessa í fjárveitingum til embættisins. Fáist þessi kostnaður ekki viðurkenndur í auknum fjárveitingum ber að grípa til viðeigandi sparnaðar í rekstri.

Í úttekt sinni vekur Ríkisendurskoðun sérstaka athygli á ágreiningi dómsmálaráðuneytisins og Lögreglustjórans á Suðurnesjum um rekstur og verkefni embættisins. Sá ágreiningur snýst ekki eingöngu um boðaðar breytingar á því. Stofnunin telur að þessir aðilar hafi ákveðið að leggja ágreining sinn til hliðar og vinna í sameiningu að framgangi þeirra breytinga sem til stendur að gera á skipulagi og rekstri embættisins.

Sjá nánar