Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og grunnskólinn

Skýrsla til Alþingis

17.01.2008

Jafna má kostnað íslenskra sveitarfélaga við að reka grunnskólann enn meir en nú er gert með því að einfalda þær reglur sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga notar við að úthluta framlögum til þeirra. Þá mætti nýta sjóðinn betur til að auka gæði skólastarfsins og draga úr þeim mun sem er á skólum að því leyti. Einnig er mikilvægt að menntamálaráðuneytið auki eftirlit með starfi grunnskólans og að sveitarfélögin komi á samræmdri flokkun kostnaðar í reikningsskilum vegna hans.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar „Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og grunnskólinn“ er bent á að mjög mikill munur er á kostnaði íslenskra sveitarfélaga við að reka grunnskólann. Þar gildir einu hvort horft er á kostnað á hvern nemanda, kostnað á hvern íbúa sveitarfélags eða hlutfallslegan kostnað sveitarfélaga af heildartekjum þeirra. Munurinn stafar einkum af mismunandi stærð skólanna og þar með misgóðri nýtingu stöðugilda. Eins er ljóst að hlutfall grunnskólanema af heildaríbúafjölda sveitarfélaga og þéttleiki byggðar skipta verulegu máli.

Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er m.a. ætlað að jafna þann mun sem er á kostnaði við að reka grunnskóla og sjá til að öll sveitarfélög landsins geti fullnægt lágmarkskröfum um skólahald. Núverandi úthlutunarreglur sjóðsins nýtast vissulega í þessu skyni en ná engan veginn að skapa fullkominn jöfnuð milli sveitarfélaga. Eftir úthlutun er til dæmis kostnaður á íbúa af rekstri 10-20 barna skóla enn um tvisvar sinnum meiri en kostnaður þeirra sem reka skóla með 350-500 nemendur. Þá er ljóst að sum sveitarfélög verja svo háu hlutfalli af tekjum sínum til grunnskólans að afar lítið er eftir til annarrar starfsemi. Ríkisendurskoðun telur að stuðla megi að auknum jöfnuði með einfaldari og markvissari úthlutunarreglum úr sjóðnum og án þess að auka fjármagnið sem rennur til hans.

Í úttekt sinni bendir Ríkisendurskoðun á að gæðaöryggi sé að mörgu leyti ábótavant í íslensku grunnskólakerfi. Vísbendingar eru til dæmis um að árangur nemenda í tilteknum skólum sé endurtekið langt undir meðaltali á samræmdum prófum. Lögum samkvæmt skal menntamálaráðuneytið hafa eftirlit með þessu en mikið skortir á að gripið sé til aðgerða þegar úrbóta er þörf. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gæti nýst í því ferli, til dæmis með því að veita framlög sem taka mið af ¿þyngd¿ skólasvæða eða úrbótum í gæðamálum. Hingað til hefur sjóðurinn ekki verið nýttur á þann hátt. Þá telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið setji skýr markmið með grunnskólann og viðmið um árangur.

Ríkisendurskoðun bendir að lokum á mikilvægi þess að sveitarfélögin komi sér saman um samræmda flokkun kostnaðar í reikningsskilum grunnskólans. Vegna takmarkaðs eftirlits með starfi skólanna og ófullnægjandi gagnaöflunar er afar erfitt fyrir stjórnvöld, almenning og fræðasamfélagið að leggja faglegt og fjárhagslegt mat á gæði þess starfs sem unnið er innan veggja skólanna. Ekki er sjálfgefið að aukin framlög til skólamála skili sé í bættum árangri nemenda. Vísbendingar eru um að vandinn liggi fremur í innri gerð skólakerfisins.

Sjá nánar