St. Jósefsspítali – Sólvangur

Skýrsla til Alþingis

07.11.2007

Starfsemi St. Jósefsspítala – Sólvangs einkennist af faglegum metnaði og góðum starfsanda. Hins vegar var ekki staðið nógu vel að undirbúningi og framkvæmd sameiningar stofnananna árið 2006 og raunar má draga í efa að sameiningin hafi átt rétt á sér. Mikilvægt er að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið geri árangursstjórnunarsamning við spítalann þar sem fram komi hvaða verkefnum hann eigi að sinna. Þá þarf að endurskoða samkomulag spítalans við sérfræðilækna vegna ferliverka og herða eftirlit með því að þeir fari ekki fram úr þeim einingafjölda sem kveðið er á um í samningum við stofnunina.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi St. Jósefsspítala – Sólvangs kemur fram að spítalinn hefur unnið að þróun lækningaaðferða og náð góðum árangri á ýmsum sviðum þjónustu. Einnig séu samskipti og starfsandi innan stofnunar almennt góð.

Hins vegar er bent á ýmsar brotalamir við undirbúning og framkvæmd sameiningar St. Jósefsspítala og Sólvangs árið 2006. Ekki voru gerðar formlegar tíma-, framkvæmda- eða kostnaðaráætlanir né sett fjárhagsleg og fagleg markmið um það hverju sameiningin ætti að skila. Ríkisendurskoðun telur að sameiningin hafi liðið fyrir þetta.

Þá dregur Ríkisendurskoðun einnig í efa að þau rök sem notuð voru þegar sameiningin var ákveðin hafi átt við, þ.e. að rétt væri að koma á einni öflugri heilbrigðisstofnun fyrir sveitarfélagið, eins og víða hafði verið gert á landsbyggðinni. St. Jósefsspítali er fyrst og fremst sérhæft sjúkrahús sem tekur á móti sjúklingum alls staðar að af landinu en sinnir síður almennri svæðisbundinni sjúkrahúsþjónustu. Sólvangur er hins vegar hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Bæði St. Jósefsspítali og Sólvangur áttu í umtalsverðum rekstrarörðugleikum fyrir sameiningu og hefur enn ekki verið sigrast á þeim. Ein af ástæðum þessa vanda St. Jósefsspítala er sú að læknar vinna talsvert umfram heimilaðar ferliverka- og læknisverkaeiningar. Gera verður þá kröfu til stjórnenda spítalans að þeir stýri betur starfi sérfræðilækna. Þá þarf að setja einstökum deildum fjárhagslegan ramma og bæta upplýsingastreymi frá yfirstjórn til deildarstjóra um fjárhagslega stöðu deilda.

Ríkisendurskoðun telur einnig afar mikilvægt að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið geri árangursstjórnunarsamning við stofnunina þar sem fram komi hvaða verkefnum spítalinn eigi að sinna og hvernig meta eigi árangurinn. Í því samhengi skiptir miklu máli að spítalinn ljúki innleiðingu á svonefndri DRG-kostnaðargreiningu, svo að unnt sé að meta kostnað við aðgerðir og tengja fjármögnun við afköst.

Að lokum leggur Ríkisendurskoðun til að samkomulag St. Jósefsspítala og lækna frá árinu 1983 verði endurskoðað til samræmis við samninga Tryggingastofnunar ríkisins við lækna. Þá verði settar vinnureglur um hvernig skuli bregðast við þegar vinna sérfræðilækna við ferliverk fer fram úr umsömdum einingafjölda.

Sjá nánar