Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu

Skýrsla til Alþingis

12.06.2007

Mikilvægt er að stjórnvöld menntamála taki skýrari afstöðu til þess en hingað til hvernig verja á kennsluframlögum til háskóla og taki þá m.a. mið af þjóðhagslegri hagkvæmni námsgreina og æskilegri dreifingu kennslu milli skóla. Einnig þarf að finna leiðir til að draga úr brottfalli nemenda ríkisrekinna háskóla. Þá þurfa stjórnvöld að setja lágmarkskröfur um menntunarstig háskólakennara og rannsóknarvirkni.
Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar „Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu“ er borin saman kennslu fjögurra íslenskra háskóla í viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði á tímabilinu 2003-2005. Tveir þeirra eru ríkisreknir, Háskóli Íslands (HÍ) og Háskólinn á Akureyri (HA), en tveir í einkaeigu, Háskólinn í Reykjavík (HR) og Háskólinn á Bifröst (HB). Þau atriði sem einkum var horft til eru kostnaður vegna kennslu, akademísk staða deilda og skilvirkni kennslunnar. Við samanburð viðskiptadeilda var einnig litið til ánægju nemenda með gæði kennslunnar, aðbúnað og þjónustu og afdrifa brautskráðra nemenda. Til að meta stöðu skólanna í alþjóðlegu samhengi var kennsla þeirra í viðskiptafræði borin saman við kennslu fjögurra erlendra háskóla á árunum 2004-2005.

Almennt komu fjölmennu skólarnir, HÍ og HR, mun betur út úr samanburði íslensku skólanna en hinir fámennu, HA og HB. Af þeim ellefu atriðum sem horft var til varð HÍ efstur í níu tilvikum og í öðru sæti í einu. Í öllum námsgreinunum þremur reyndist skólinn ódýrastur miðað við nemendafjölda og með sterkasta akademíska stöðu. Auk þess var hann skilvirkastur í tveimur námsgreinum af þremur. HR kom best út í tveimur tilvikum og lenti sjö sinnum í öðru sæti. HA og HB ráku oftast nær lestina. Athygli vekur að brottfall nemenda var almennt minna í einkareknu skólunum en hinum ríkisreknu og þar voru nemendur sömuleiðis ánægðari með kennslu, aðbúnað og þjónustu.

Samanburður Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að íslensku viðskiptadeildirnar stóðu þeim erlendu að baki þegar horft var til akademískrar stöðu og skilvirkni. Í því sambandi vegur þyngst að erlendu skólarnir hafa hlutfallslega fleiri fasta akademíska starfsmenn með doktorsgráðu og að þeir útskrifa mun fleiri nemendur miðað við starfsmannafjölda. HÍ var hins vegar næstódýrastur allra skólanna og raunar sá íslenskur skóli sem stóð næst erlendu skólunum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á miklum vexti viðskiptafræði og lögfræði hér á landi á undanförnum árum og því að hlutfallslega mun fleiri stunduðu nám í viðskiptafræði en annars staðar á Norðurlöndunum árið 2005. Þessi munur endurspeglar þá staðreynd að yfirvöld íslenskra menntamála hafa ekki reynt að stýra nemendafjölda einstakra háskólagreina með beinum hætti ólíkt því sem tíðkast í öðrum löndum. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að taka skýrari afstöðu til þess en gert hefur verið hvernig verja á fjárveitingum til háskóla og taki þá m.a. mið af þjóðhagslegri hagkvæmni einstakra námsgreina, kostnaði við þær, eðlilegum nemendafjölda og dreifingu kennslu milli skóla. Eðlilegt er að slík stefna sé sett til nokkurra ára. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að verulegur munur var á skólum hvað varðar kostnað og var HÍ að jafnaði tvisvar til þrisvar sinnum ódýrari en sá skóli sem var dýrastur. Könnun Ríkisendurskoðunar á afdrifum brautskráðra viðskiptafræðinga frá 2006 sýnir einnig að um 14% þeirra telja sig hafa of mikla menntun fyrir núverandi starf.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar gefur til kynna að á tímabilinu 2003-2005 hafi á bilinu 19-57% nemenda einstakra skóla í viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði horfið frá námi eftir eins árs nám. Slíkt brottfall var almennt mun meira hjá ríkisreknu háskólunum en þeim einkareknu og mest hjá HÍ. Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa bæði stjórnvöld og stjórnendur skólanna að huga að leiðum til að draga úr þessu brottfalli svo að fjármagn nýtist sem best. Í því samhengi er eðlilegt að huga að því hvort takmarka eigi inntöku nemenda frekar en gert er nú, t.d. með strangari inntökuskilyrðum eða inntökuprófum. Á sama hátt þarf að huga að því hvort breyta eigi reiknilíkani háskólanna þannig að framlög taki mið af árangri nemenda á prófum og fjölda brautskráninga líkt og gert er í öðrum löndum.

Að lokum leiddi úttekt Ríkisendurskoðunar í ljós að mikill munur er á menntunarstigi og rannsóknarvirkni akademískra starfsmanna í viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði eftir deildum. Sums staðar voru einungis um 10% fastra akademískra starfsmanna með doktorspróf á tímabilinu 2003-2005 en annars staðar 100%. Í sumum þeirra skrifaði hver akademískur starfsmaður um hálft greinarígildi á ári en í öðrum voru greinarígildin rúm tvö. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld eigi að skerpa þær kröfur en nú eru gerðar um akademíska stöðu háskóla sem þiggja opinber framlög, m.a. um menntunarstig kennara og rannsóknarvirkni.

Sjá nánar