Vinnueftirlit ríkisins. Stjórnsýsluúttekt

Skýrsla til Alþingis

22.03.2007

Vinnueftirlit ríkisins hefur frá árinu 1981 gegnt lykilhlutverki í vinnuvernd hér á landi. Stofnunin hefur staðið sig með ágætum við að fræða og upplýsa á því sviði og ætti að leggja aukna áherslu á slíkt á komandi árum. Auk þess er mikilvægt að hún forgangsraði verkefnum þannig að hún einbeiti sér að stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar en dragi sig út úr sérhæfðri þjónustu sem aðrir aðilar eru færir um að veita.

Vinnueftirlitið sinnir mjög víðtæku eftirliti í samfélaginu, þ.e. fyrirtækja-, vinnuvéla- og markaðseftirliti, auk fræðslu, ráðgjafar og rannsókna. Vegna þessa dreifast kraftar þess mikið, auk þess sem óæskilegt má telja að einn og sami aðili hafi með höndum eftirlit, ráðgjöf og rannsóknir á sama sviði.

Ríkisendurskoðun telur að stofnunin ætti að einbeita sér að tilteknum kjarnaþáttum, þ.e. stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar, en láta öðrum sem mest eftir sérhæfða þjónustu og ráðgjöf um vinnuvernd. Slíkt væri ekki aðeins í samræmi við stefnu stjórnvalda um opinbera eftirlitsstarfsemi heldur einnig nær því fyrirkomulagi sem tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar.

Í þessu samhengi leggur Ríkisendurskoðun til að kannað verði hvort flytja megi hluta vinnuvélaeftirlits stofnunarinnar til faggiltra skoðunarstofa og stjórnsýslu þess til Umferðarstofu. Hér er m.a. átt við eftirlit með farandvinnuvélum, tækjum sem áföst eru bifreiðum og öðrum hjólatækjum sem aka utandyra, og er um margt hliðstætt bifreiðaeftirliti. Að mati Ríkisendurskoðunar gæti slíkt fyrirkomulag orðið bæði hagkvæmara og skilvirkara en það sem nú tíðkast og auk þess hentugra fyrir þá sem notfæra sér þjónustuna. Um leið mætti flytja stjórnsýslu með starfsréttindum vegna vinnuvéla undir Umferðarstofu sem annast nú þegar stjórnsýslu ökuréttinda.

Ríkisendurskoðun telur á sama hátt eðlilegt að markaðseftirlit Vinnueftirlitsins með ýmiss konar vélum, tækjum og búnaði sem ætluð eru til vinnu fari fram í samstarfi við Neytendastofu sem ætlað er að samræma opinbert markaðseftirlit. Neytendastofa semji þá við faggiltar skoðunarstofur um eftirlitið og tryggi samræmi í því, en Vinnueftirlitið rýni þau gögn sem skoðanir leiða í ljós og gegni áfram hlutverki eftirlitsstjórnvalds.

Vegna fyrirtækjaeftirlits leggur Ríkisendurskoðun til að Vinnueftirlitið hraði sem mest innleiðingu á svonefndu aðlöguðu eftirliti þar sem megináhersla er lögð á ábyrgð atvinnurekenda á stöðugu vinnuverndarstarfi innan fyrirtækja sinna. Í tengslum við þetta er mikilvægt að það setji töluleg og tímasett markmið um fjölda þeirra fyrirtækja sem gert hafi áhættumat og upplýsi atvinnurekendur um lagalegar skyldur sínar til að standa að slíku mati. Þá bendir Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að fyrirtækjaeftirlit taki jafnan mið af útgefnum skoðunarhandbókum til að tryggja samræmt eftirlit og samræmdar aðgerðir vegna frávika.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að efla gagnasöfnun og rannsóknir á áhrifum vinnuverndarstarfs til þess að auðveldara sé að meta þróun þessara mála hér á landi, bæði með hliðsjón af öðrum löndum og þeim markmiðum sem sett hafa verið. Ríkisendurskoðun bendir á að frumkvæði og þátttaka Vinnueftirlitsins í stofnun Rannsóknarstofu í vinnuvernd hafi verið jákvætt skref í þessa átt og að kanna beri hvort hún geti leyst Vinnueftirlitið af hólmi við slíkar rannsóknir, en ýmis rök mæla gegn því að þeim sé sinnt innan stjórnsýslustofnunar.

Að lokum bendir Ríkisendurskoðun á að stjórn Vinnueftirlitsins hafi ekki náð að laga sig að breyttu hlutverki sínu sem ráðgefandi stjórnar og hafi það torveldað samskipti stofnunar og félagsmálaráðuneytis. Lagt er til að stjórnin verði lögð niður en í stað hennar stofnað sérstakt vinnuverndarráð, skipað fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Það verði ráðherra til ráðgjafar en hafi engin bein tengsl við stofnunina. Slíkt fyrirkomulag sé enda í samræmi við þá ráðherrastjórnsýslu sem hér tíðkast. Þá telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að árangursstjórnunarsamningur félagsmálaráðuneytis við stofnunina frá 1998 sé virkjaður til fullnustu sem stjórntæki, þ.e. með því að hann sé tengdur mælanlegum markmiðum um árangur sem ráðuneytið fylgist með og taki afstöðu til.

Sjá nánar