Verkmenntaskóli Austurlands. Fjármál og rekstur 2002-2005

Skýrsla til Alþingis

25.01.2006

Hallarekstur Verkmenntaskóla Austurlands á árunum 2002-2003 má fyrst og fremst rekja til þess að kennslumagn skólans miðaðist við mun fleiri nemendur en stunduðu nám við hann á þessum árum. Frá árinu 2004 hefur skólanum tekist að nýta starfsfólk og aðstöðu betur og sníða starfsemi sína að fjárframlögum.

Um tveir þriðju allra framhaldsskóla landsins voru reknir með halla á árunum 2002-2003. Fyrra árið var Verkmenntaskóli Austurlands með hlutfallslega mestan halla en síðara árið var hann sá þriðji í röðinni. Alls nam halli skólans um 31 m.kr. á tímabilinu. Að mati Ríkisendurskoðunar er meginástæða hans tvíþætt. Annars vegar veigruðu stjórnendur skólans sér við að gera breytingar sem hefðu áhrif á kennslumagn vegna skuldbindinga sinna við nemendur. Hins vegar var eftirliti menntamálaráðuneytisins með fjárreiðum skólans ábótavant.

Breyting á reiknilíkani menntamálaráðuneytisins og fjölgun ársnemenda olli því að Verkmenntaskóli Austurlands fékk umtalsvert hærri framlög árið 2004 en árið áður. Þetta ásamt auknu aðhaldi skólastjórnenda stuðlaði að því að rekstur skólans varð jákvæður þetta ár og flest bendir til að hann verði einnig í jafnvægi árið 2005.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru dregnar fram ýmsar almennar upplýsingar um rekstur framhaldsskóla landsins. Þegar Verkmenntaskóli Austurlands er skoðaður í því ljósi sést að hann er í hópi þeirra skóla þar sem nýting er slökust og kostnaður því hlutfallslega mestur. Á tímabilinu 2002-2004 voru færri ársnemendur á hvern starfsmann skólans en hjá nokkrum öðrum framhaldsskóla landsins. Húsnæði hans er auk þess með því stærsta sem gerist miðað við fjölda ársnemenda og nýting þess því mjög slök.

Til að tryggja að rekstur Verkmenntaskóli Austurlands verði áfram innan fjárheimilda þurfa stjórnendur að hafa virkt eftirlit með kostnaði og beita markvissum aðgerðum til að halda aftur af honum, líkt og gert hefur verið síðustu tvö ár. Brýnt er að styrkja áætlanagerð skólans þannig að þær taki ávallt mið af ítarlegum útreikningum. Mikilvægt er að stjórnendur geri sér grein fyrir samhengi kennslumagns, nýtingar og rekstrarafkomu og fari í einu og öllu eftir fyrirmælum um framkvæmd fjárlaga.

Í skýrslunni gerir Ríkisendurskoðun nokkrar athugasemdir við það líkan sem notað er til að reikna út fjárveitingar til framhaldsskólanna. Stofnunin bendir m.a. á að framlög ríkisins vegna húsnæðis, aðstöðu og búnaðar ættu ekki að taka mið af nýtingu heldur af raunkostnaði. Framlög til kennslu ættu hins vegar áfram að miðast við nýtingu enda hafa stjórnendur að jafnaði betra svigrúm til að breyta kennslumagni en t.d. að stækka eða minnka húsnæði.

Sjá nánar