Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni. Umhverfisendurskoðun

Skýrsla til Alþingis

16.01.2006

Upphaflegar væntingar og markmið Alþingis með aðild Íslands að Samningnum um líffræðilega fjölbreytni hafa ekki gengið eftir. Þá hafa náttúrufræðilegar rannsóknir hér á landi ekki verið efldar nægjanlega frá gerð samningsins í því skyni að kanna líffræðilega fjölbreytni Íslands. Mikilvægt er að Alþingi skoði vandlega hvort hægt sé að styrkja stöðu þessa málaflokks.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni er almennt álitinn einn af þýðingarmestu alþjóðasamningum á sviði umhverfisréttar. Ísland varð aðili að honum í desember 1994 og skal Alþingi setja þann lagaramma sem nauðsynlegur er til að íslensk stjórnvöld geti framfylgt honum. Umhverfisráðuneytið hefur umsjón með þeirri framfylgd og ber ásamt undirstofnunum sínum meginábyrgð á innleiðingu og framkvæmd samningsins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Ríkisendurskoðun telur að mun betur hefði mátt vanda undirbúning að aðild Íslands að Samningnum um líffræðilega fjölbreytni og flýta fyrir framkvæmd hans hér á landi. Aðild Íslands að samningnum hefur til þessa haft mjög takmörkuð áhrif á íslenska löggjöf og opinbera stefnu á sviði líffræðilegrar fjölbreytni. Landsáætlanir um vernd og vöktun líffræðilegrar fjölbreytni hafa ekki verið unnar og í íslenskum lögum er enn sem komið er hvergi minnst berum orðum á samninginn. Einstakar lagagreinar eða ákvæði í löggjöfinni miða þó að því að innleiða ákvæði hans, en sú innleiðing virðist nokkuð tilviljanakennd og ómarkviss. Þá hafa stjórnvöld ekki kannað hvernig gengið hafi að innleiða samninginn eða hrinda honum í framkvæmd hér á landi. Þrátt fyrir að lykilhugtök hans, eins og sjálfbær landnýting og líffræðileg fjölbreytni, komi á nokkrum stöðum fyrir í löggjöfinni eru þau hvergi skilgreind þar nákvæmlega og skapar það umtalsverða óvissu um túlkun og framkvæmd þeirra.

Athygli vekur að aðild Íslands að samningnum skuli ekki hafa leitt til meiri náttúrufræðilegra rannsókna og aukinnar áherslu á náttúruvernd en raun ber vitni. Samkvæmt honum ætti að vera forgangsverkefni að skrásetja á sem víðtækastan hátt líffræðilega fjölbreytni um allt land. Þar sem þetta er flókið og umfangsmikið verkefni er afar mikilvægt að skoða vel og móta á hvað skuli leggja áherslu. Þá ber að hafa í huga að a.m.k. á meðan ónógar rannsóknir hafa farið fram kann að vera ástæða til að lögfesta varúðarsjónarmið gagnvart nýtingu náttúruauðlinda, en slík varúðarregla finnst ekki í íslenskri löggjöf.

Með aðildinni hefur Ísland tekið á sig þá þjóðréttarlegu skyldu að öll notkun þeirra efnisþátta sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni skuli vera sjálfbær. Um slík skilyrði mun þó aðeins kveðið með skýrum hætti á einum stað í íslenskri löggjöf, þ.e. þar sem rætt er um sérstaka og mjög afmarkaða tegund landnýtingar, gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Athygli vekur að þessi löggjöf er á verksviði landbúnaðarráðuneytisins og engar skilgreiningar á sjálfbærri nýtingu auðlinda munu finnast í löggjöf sem umhverfisráðuneytið hefur undirbúið. Eðlilegt er að huga að þessu á vettvangi allrar löggjafar sem snertir nýtingu íslenskra náttúruauðlinda.

Að lokum bendir Ríkisendurskoðun á að engin stofnun eða aðili í íslensku stjórnkerfi hefur það meginhlutverk að gæta sérstaklega hagsmuna umhverfisins eða náttúrunnar, þ.e. vera eins konar talsmaður eða umboðsmaður hennar. Enginn einn aðili hefur því fulla yfirsýn um það hvernig staðið er að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og einnig virðist skorta virkan formlegan samráðsvettvang stjórnvalda til að eðlilega verði staðið að innleiðingu og framfylgd samningsins hér á landi. Æskilegt er að Alþingi og stjórnvöld skoði hvernig þarna megi bæta úr og eftir atvikum fela tilteknu stjórnvaldi með skýrum hætti að fylgjast með hvernig staðið er að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi.

Sjá nánar