Endurskoðun ríkisreiknings 2004

Skýrsla til Alþingis

22.11.2005

Meðferð bókhaldsgagna hjá stofnunum ríkisins hefur batnað mikið á undanförnum árum og gerir Ríkisendurskoðun nú sífellt færri athugasemdir við umhirðu ríkisfjár. Enn skortir hins vegar á að staðið sé að framkvæmd fjárlaga eins og best væri á kosið. Þá eru óraunhæfar áætlanir í skattkerfinu til baga.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2004“ lýsir afrakstri stofnunarinar af fjárhagsendurskoðun ársins 2004. Alls voru 432 ársreikningar stofnana og fyrirtækja ríkisins með áritun endurskoðanda það ár og er það nú orðinn fastur liður að gefa út endurskoðaða ársreikninga fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings, auk stofnana og fyrirtækja í B-, C-, D- og E-hluta hans.

Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2004 var ríkissjóður rekinn með 2,0 ma.kr. tekjuafgangi miðað við 6,1 ma.kr. halla á árinu 2003. Tekjur jukust enda hlutfallslega meira en gjöld eða um 10% á móti 7%. Helstu breytingar á efnahagsreikningi fólust í því að skuldir minnkuðu um 11,3 ma.kr. en eignir um 3,2 ma.kr. Eiginfjárstaða ríkissjóðs batnaði því um 8,1 ma.kr. Á árinu 2003 versnaði hún hins vegar um 12,6 ma.kr. Þrátt fyrir að skuldir ríkissjóðs hafi lækkað verulega á undanförnum árum hafa lífeyrisskuldbindingar stöðugt aukist og námu þær 191 ma.kr. í árslok 2004. Hækkun milli ára nemur 3,5%.

Ríkisendurskoðun bendir á að í ársbyrjun 2004 voru fluttar tæpar 19,5 ma.kr. fjárheimildir frá árinu 2003. Ýmist voru þetta ónýttar fjárheimildir (15 ma.kr.) eða ráðstöfun umfram fjárheimildir (4,5 ma.kr.). Þessi flutningur svarar til um 7,5% af fjárlögum ársins. Af þessu tilefni ítrekar stofnunin þá skoðun sína að flutningur fjárheimilda umfram þau 4% viðmiðunarmörk sem nefnd eru í reglugerð um framkvæmd fjárlaga sé óheppilegur og veiki mjög framkvæmd fjárlaga. Alls fóru 179 fjárlagaliðir af 459 (39%) fram úr heimildum árið 2004.

Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun einnig á að óraunhæfar áætlanir í virðisaukaskatti eru verulegar og við uppgjör virðisaukaskatts fyrir árið 2004 var ákveðið að tekjufæra einungis 2% af áætlun skattyfirvalda. Samsvarandi leiðréttingar voru gerðar á álagi og dráttarvöxtum. Þá eru umtalsverðar áætlanir í öðrum skattstofnum. Ríkisendurskoðun telur að skattyfirvöld verði að taka til hendi í þessum málum.

Við fjárhagsendurskoðun ársins 2004 kannaði Ríkisendurskoðun sérstaklega nokkur atriði sem varða húsnæðismál stofnana, tölvumál, símamál og aðkeypta þjónustu vegna upplýsingamála. Fram kom að í um 59% tilvika töldu stjórnendur að húsnæði stofnunar þeirra væri fullnægjandi. Almennt komu stofnanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verst út í þessu samhengi. Talsverður munur var á fermetraverði á leiguhúsnæði. Ekki reyndist hins vegar samhengi milli þess hvort leiguhúsnæði var talið fullnægjandi og hins hvort fermetraverð var yfir meðallagi.

Fram kom að í um helmingi allra stofnana ríkisins gátu einhverjir starfsmenn tengst tölvukerfi stofnunar sinnar utan vinnustaðar og oft höfðu þeir óheftan aðgang að sömu gögnum og á vinnustað. Árið 2004 greiddi hver stofnun heimatengingu fyrir að meðaltali 3 starfsmenn, oftast yfirmenn og kerfisstjóra. Í þessu samhengi bendir Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að stofnanir setji sér reglur um þessi mál og haldi heimatengingum í lágmarki vegna öryggismála.

Gjöld ríkisstofnana vegna fjarskiptamála hafa hækkað talsvert á síðustu árum og munar þar miklu um verulega hækkun á bandvíddargjöldum vegna gagnaflutnings og gjalda af farsímum. Árið 2004 átti hver stofnun ríkisins að jafnaði tæpa 16 farsíma og greiddi af rúmlega 17. Um helmingur stofnananna átti þó á bilinu 0-5 farsíma. Oftast höfðu tilteknir lykilstarfsmenn þessa síma til umráða, svo sem æðstu stjórnendur og umsjónarmenn fasteigna og tölvukerfa. Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að stofnanir setji sér verklagsreglur vegna notkunar á farsímum sem starfsmenn hafa til eigin umráða en stofnanir greiða fyrir. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að líklega mætti ná fram nokkrum sparnaði í fjarskiptakostnaði með auknum útboðum.

Í umfjöllun sinni um aðkeypta þjónustu vegna upplýsingamála bendir Ríkisendurskoðun á hve óskýr skil eru á milli þeirra kostnaðarliða í rekstrarsamningum á þessu sviði sem ríkisstofnanir geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af og þeirra kostnaðarliða sem slíkur skattur fæst ekki endurgreiddur af. Stofnunin telur að setja þurfi skýrari ákvæði í reglugerðir um þessi mál. Þá bendir Ríkisendurskoðun einnig á að í mörgum tilvikum gætu stofnanir ríkisins boðið út viðhald á þeim hugbúnaðarkerfum sem þær nota.

Sjá nánar