Framkvæmd fjárlaga árið 2003

Skýrsla til Alþingis

12.07.2004

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ársins 2003 er bent á mikilvægi þess að ráðuneyti og stofnanir ríkisins virði fjárlög, að farið sé í saumana á fjármálum og rekstri þeirra stofnana sem reknar hafa verið með halla á undanförnum árum og að verklag ráðuneyta við eftirfylgni fjárlaga sé samræmt betur.

Með fjárlögum samþykkir Alþingi þau útgjöld sem ráðuneytum og stofnunum eru heimiluð til starfsemi sinnar. Það er því ekki ásættanlegt að margar stofnanir og ráðuneyti hafi farið langt fram úr fjárheimildum á undanförnum árum. Í nágrannalöndum heyrir það til undantekninga að fjárlög séu ekki virt.

Áætlanagerð ráðuneyta og ríkisstofnana hefur almennt batnað á undanförnum árum. Engu að síður jókst halli þeirra stofnana sem fóru umfram fjárheimildir á árinu 2003. Í árslok 2003 voru 108 af 530 fjárlagaliðum ríkisins með uppsafnaðan halla sem nemur meira en 4% af fjárheimild ársins, en það eru þau viðmiðunarmörk sem reglugerð um framkvæmd fjárlaga setur. Margar stofnanir hafa jafnvel farið langt fram úr fjárlögum ár eftir ár.

Að mati Ríkisendurskoðunar er þessi umframeyðsla óásættanleg enda gerir hún að engu markmið stjórnvalda um hóflega aukningu ríkisútgjalda og hallalausan rekstur. Ríkisendurskoðun bendir á nauðsyn þess að ráðuneyti og stofnanir virði fjárlög og sjái til þess að rekstur stofnana og fyrirtækja sé innan fjárheimilda. Þá þarf sérstaklega að fara yfir fjármál og rekstur þeirra stofnana sem hafa safnað neikvæðri stöðu gagnvart fjárheimildum undanfarin ár. Ef stjórnvöld ætla þessum stofnunum ekki að draga verulega saman rekstur sinn til að jafna hallann er ljóst að þær þurfa á sérstökum fjárveitingum að halda. Þá þarf að samræma betur verklag ráðuneytanna við eftirfylgni með fjárlögum.

Samanburður Ríkisendurskoðunar á forsendum fjárlaga og rekstri ríkisins á árunum 1999-2002 sýnir að tekjur urðu 38,2 ma.kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Gjöld fóru hins vegar 90 ma.kr. fram úr áætlun. Neikvæð staða eigin fjár ríkisins versnaði um 50 ma.kr. frá árslokum 1999 til ársloka 2002, þar af eru rúmir 46 ma.kr. vegna verð- og gengisbreytinga á tímabilinu. Í forsendum fjárlagafrumvarpa var gert ráð fyrir að aukning samneyslu yrði að meðaltali tæp 3% á ári en hún varð í raun yfir 10%. Þá var áætlað að verg landsframleiðsla ykist að meðaltali um 2,5% á ári en aukningin varð í raun tæplega fjórfalt meiri.

Í fjárlögum ársins 2003 var gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með 3,8 ma.kr. greiðsluafgangi. Í reynd varð hallinn 9,1 ma.kr. Tekjur ríkissjóðs urðu að vísu 1,1 ma.kr. meiri en áætlað var en á móti kom að gjöld urðu 14 ma.kr. hærri en ráð var fyrir gert. Fjárlög áætluðu að handbært fé til rekstrar yrði um 6 m.kr. en reyndin varð rúmar 19 m.kr. Lántökur urðu því meiri en áætlað var í fjárlögum.

Sjá nánar