Háskólamenntun. Námsframboð og nemendafjöldi

Skýrsla til Alþingis

08.07.2004

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um námsframboð og nemendafjölda við háskóla er lagt til að yfirvöld menntamála móti opinbera og áþreifanlega heildarstefnu um háskólastigið þar sem verkefnum er forgangsraðað, þau tímasett og mælanleg markmið skilgreind.

Í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hafi mikil gróska verið í háskólamenntun á Íslandi. Nýir skólar á háskólastigi hafa bæst við, námsframboð hefur stóraukist og nemendum fjölgað mikið. Íslenskir skólar á háskólastigi eru nú 10 með samtals yfir 300 námsbrautir og um 14.000 skráða nemendur. Útgjöld ríkisins vegna þessara skóla nema um 11 milljörðum króna á ári.

Fram hefur komið að forsvarsmenn margra skóla á háskólastigi telja að opinber stefna um málefni háskóla sé ekki nægjanlega skýr og hafa nefnt sem dæmi að ekki sé alltaf nógu skýrt hvaða forsendur liggi að baki ákvörðunum í málefnum háskólastigsins, svo sem um viðurkenningu á skólum og nýju námi. Þá er ljóst að sumir forsvarsmenn skólanna telja að stjórnvöld eigi að sýna meira frumkvæði og gegna frekara stefnumarkandi hlutverki varðandi þróun háskólastigsins.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þróun háskólastigsins hafi að sumu leyti verið hraðari en stjórnvöld sáu fyrir og ýmis álitamál sprottið upp vegna fjölgunar skóla. Þau hafa m.a. verið um fjármögnun skólanna, stjórnun og rekstrarform, skiptingu opinbers fjármagns á milli skóla og kröfur sem gerðar eru til háskóla og einstakra námsbrauta innan þeirra. Stjórnvöld hafa ekki mótað endanlega afstöðu til sumra þessara mála en að öðrum er unnið, til að mynda með því að koma á meiri formfestu í samskiptum menntamálaráðuneytisins við skólana.

Ríkisendurskoðun skoðaði hvernig þessum málum er háttað í þremur öðrum löndum: Noregi, Hollandi og Bretlandi. Í skýrslunni kemur fram að þar er opinber stefna um háskólastigið mótuð með talsvert formlegri hætti í samráði stjórnvalda, fulltrúa háskóla, stúdenta og annarra hagsmunaaðila. Í öllum löndunum hafa stjórnvöld sett mælanleg markmið um háskólastigið.

Skólar á háskólastigi heyra fyrst og fremst undir menntamálaráðuneytið en skólar sem sinna búnaðarfræðslu heyra þó undir landbúnaðarráðuneytið. Til að tilheyra háskólastigi þarf skóli að uppfylla kröfur sem koma fram í lögum um háskóla eða lögum um búnaðarfræðslu. Til viðmiðunar hefur ráðuneyti menntamála einnig notast við óstaðfestar reglur um veitingu starfsleyfa til háskóla. Erlendis eru dæmi um að skólum á háskólastigi sé skipt í tvo eða þrjá flokka og eru mismunandi kröfur gerðar til þeirra eftir því hvaða flokki þeir tilheyra. Þetta er gert í Noregi, Bretlandi og Hollandi. Hérlendis hafa skólar ekki verið flokkaðir og formlega séð eru ekki gerðar mismunandi kröfur til þeirra.

Miðað við viðurkenndar prófgráður hefur námsleiðum á háskólastigi fjölgað um rúmlega hundrað frá árinu 1999. Skólarnir hafa yfirleitt haft frumkvæði að nýjum námsleiðum enda hafa þeir að nær öllu leyti ráðið því hvaða nám þeir bjóða upp á. Í þeim löndum sem tekin eru til samanburðar í skýrslunni hafa skólar almennt haft sjálfræði um nýjar námsbrautir með sama hætti og hérlendis. Þar eru hins vegar öllu virkari gæðaeftirlitskerfi sem stjórna því hvort hægt sé að starfrækja námsbrautir og verða námsbrautir að fá vottun sérstakra gæðaeftirlitsstofnana.

Skráðir nemendur við háskóla hafa næstum tvöfaldast á einum áratug. Þeir voru um 7.000 árið 1993 en tæplega 14.000 árið 2002. Svipuð þróun hefur orðið í mörgum öðrum Evrópulöndum. Menntamálaráðuneytið gerði á árunum 1999-2001 samninga við háskóla um kennslu og fjárhagsleg samskipti. Þar var ákveðinn heildarrammi um fjölda virkra nemenda sem skólarnir fengju greitt fyrir á næstu þremur árum. Meiri eftirspurn var eftir námi en samningarnir kváðu á um og reyndust þeir því ekki það stjórntæki sem gera má ráð fyrir að þeim hafi upphaflega verið ætlað að vera.

Í skýrslunni settur Ríkisendurskoðun fram ýmsar tillögur til úrbóta í málefnum háskólastigsins. Meðal annars er lagt til að stjórnvöld skoði hvort sameina eigi alla stjórnsýslu á sviði háskólamála undir einu ráðuneyti, en landbúnaðarráðuneytið er nú eina ráðuneytið utan menntamálaráðuneytisins sem hefur skóla á sínu forræði. Þá telur Ríkisendurskoðun að gera eigi öllum aðgengilegar óbirtar reglur menntamálaráðuneytisins sem hingað til hafa verið hafðar til hliðsjónar við útgáfu starfsleyfa til háskóla. Ríkisendurskoðun telur einnig rétt að skoða hvort gera skuli formlegan greinarmun á skólum á háskólastigi, t.d. hvað varðar framhaldsnám og rannsóknir, með hliðstæðum hætti og víða er gert erlendis. Kröfur til skóla og fjárveitingar tækju þá mið af þeirri flokkun. Loks má nefna að stofnunin telur ástæðu til að skoða hvort ekki ætti að tengja fjárveitingar til kennslu á háskólastigi við árangur nemenda og skólans sjálfs, þ.e. láta fjárveitingar að hluta til ráðast af því hve mörgum einingum nemendur ljúka árlega og hve margar prófgráður skólinn veitir.

Sjá nánar