Viðbótarlaun. Úttekt í framhaldi af endurskoðun ríkisreiknings 2002

Skýrsla til Alþingis

28.05.2004

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Viðbótarlaun. Úttekt í framhaldi af endurskoðun ríkisreiknings 2002“ kemur fram að greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu er helsta birtingarform viðbótarlauna hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Einungis nokkur hluti ríkisstarfsmanna fær slíkar greiðslur og þá einkum þeir sem eru hæst settir í stofnunum. Karlar fá í flestum tilvikum mun hærri viðbótarlaun en konur. Munur kynjanna er minnstur hjá háskólamenntuðum stjórnendum.

Skýrsla þessi var unnin að beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns og var þar reynt að einangra þann hóp ríkisstarfsmanna sem miklar líkur benda til að fái viðbótarlaun, þ.e. mánaðarlegar greiðslur ofan á grunnlaun án þess að sérstakt vinnuframlag þurfi að koma á móti. Slíkar greiðslur eru m.a. notaðar til að umbuna starfsmönnum fyrir árangur í starfi. Markmiðið með úttektinni var að svara því hvernig slík laun hefðu skipst eftir kynjum milli þeirra starfsmanna sem gegndu sambærilegum störfum í tíu stærstu ríkisstofnunum sem greiddu viðbótarlaun árið 2002, hver hefðu verið útgjöld þessara stofnana vegna viðbótarlauna, til hvaða starfa þau náðu og hvernig staðið hefði verið að ákvörðun þeirra.

Í skýrslunni var unnið með 1.099 manna hóp ríkisstarfsmanna sem verulegar líkur benda til að hafi fengið greidd viðbótarlaun á árinu 2002. Þessi hópur var síðan þrengdur niður í 506 starfsmenn sem unnu við þær 10 stofnanir sem greiddu mest viðbótarlaun. Í því úrtaki reyndist ekki marktækur munur á fjölda karla og kvenna. Karlar voru 248 en konur 258. Á árinu 2002 fékk þessi hópur greiddar samtals 443 m.kr. sem líklega eru viðbótarlaun að stærstum hluta. Karlar fengu 284 m.kr. en konur 159 m.kr. Þetta sýnir að konur fengu að meðaltali einungis um 56% af þeirri fjárhæð sem karlar fengu. Mjög breytilegt var þó eftir stofnunum hver munurinn er. Í skýrslunni kemur einnig fram að konur reyndust fleiri í þeim aldurshópi starfsmanna sem fékk viðbótarlaun og var undir fimmtugt en karlar voru mun fleiri í eldri aldurshópunum. Karlar fengu þó að meðaltali hærri viðbótarlaunagreiðslur en konur í öllum aldurshópum.

Ljóst er að hæstu viðbótarlaunin runnu aðallega til þeirra starfsmanna sem voru hæst settir innan stofnunar. Einnig er ljóst að því hærri stöðu sem starfsmenn gegndu þeim mun minni var launamunur kynjanna. Minnstur var hann hjá þeim sem tóku laun skv. C-ramma BHM en í honum eru aðallega stjórnendur ríkisstofnana. Ríkisendurskoðun bendir á að ekki séu til neinar samræmdar reglur um ákvörðun viðbótarlauna ríkisstarfsmanna og hvetur til þess að slíkar reglur séu settar. Slíkar reglur mætti þá taka upp í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu stofnana.

Sjá nánar