Endurskoðun ríkisreiknings 2002

Skýrsla til Alþingis

06.11.2003

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Endurskoðun ríkisreiknings 2002 eru ekki gerðar neinar stórvægilegar athugasemdir við þá aðila sem endurskoðunin náði til. Stofnunin vekur þó athygli á þeim vanda sem orðinn er í álagningarkerfi stærstu tekjuþátta ríkissjóðs og tengist erfiðleikum við að áætla þá og meta með tilliti til raunverulegra tekna sem færa á í ríkisreikning. Þá er einnig bent á að útgjöld á um fimmtungi fjárlagaliða fóru fram úr þeim mörkum sem fjárlög og reglugerð um framkvæmd fjárlaga kveða á um.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er einkum fjallað um afkomu og fjárhagsstöðu ríkissjóðs á árinu 2002 og endurskoðun á efnahag ríkisins, ríkissjóðstekjum, stofnunum og öðrum fjárlagaliðum. Þá er rætt um framkvæmd fjárlaga og gerð grein fyrir niðurstöðum athugana Ríkisendurskoðunar á fjórum atriðum í starfsumhverfi ríkisstofnana.

Fram kemur að á árinu 2002 var ríkissjóður rekinn með 8,1 ma.kr. halla en í fjárlögum hafði verið ráðgert að hann skilaði 18,5 ma.kr. rekstrarafgangi. Tekjur ríkissjóðs voru nálægt því sem áætlað var í fjárlögum en gjöld urðu 28,0 ma.kr. hærri en búist var við. Um helmingur þess fráviks skýrist af því að tveir fjárlagaliðir, gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga og afskrifir skattkrafna ríkissjóðs, hækkuð mun meira á árinu en ráð var fyrir gert. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga meira en sexfaldaðist milli ára og afskriftir meira en þrefölduðust. Vegna endurskoðunar ríkissjóðstekna bendir Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að endurskoða þann tekjugrunn sem birtist í ríkisreikningi þar sem óraunverulegar áætlanir, t.d. á uppgjöri virðisaukaskatts, valda erfiðleikum við að meta þær tekjur sem eru til ráðstöfunar.

Í greinargerð Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga er bent á að flestar stofnanir virtu þær fjárheimildir sem þeim voru ætlaðar og höguðu rekstri sínum í samræmi við þær. Engu að síður er ljóst að útgjöld 109 fjárlagaliða af 510 fóru fram úr þeim 4% mörkum sem ákveðin eru í reglugerð um framkvæmd fjárlaga. Þar af voru um 80 stofnanir og aðalskrifstofur ráðuneyta. Í sumum tilvikum hefur verið stofnað til útgjalda langt umfram 4% mörkin. Ríkisendurskoðun bendir á nauðsyn þess að tekið verði á þessum vanda.

Það markmið hefur nú að mestu leyti náðst að gefa út endurskoðaða ársreikninga fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings auk stofnana í B-, C-, D- og E-hluta ríkisreiknings. Árið 2002 voru samdir 455 ársreikningar stofnana og fjárlagaliða í A-hluta ríkisreiknings með áritun endurskoðanda en sambærileg tala fyrir árið 2001 var 408. Auk hefðbundinnar fjárhagsendurskoðunar varði Ríkisendurskoðun miklum tíma í að kanna eftirlitskerfi og stjórnskipulag stofnana og fyrirtækja ríkisins. Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á eftirtalin fjögur atriði áhættustjórnun, fyrirkomulag launaákvarðana og starfsmannamála, vöru- og þjónustukaup og styrkveitingar

Könnun Ríkisendurskoðunar bendir til þess að forstöðumenn stofnana séu almennt meðvitaðir um mikilvægi þessara atriða og leitist við að bæta úr því sem miður fer. Mikið vantar hins vegar á að þeir hafi skjalfest þá áhættuþætti sem þeir telja helst ógna starfseminni og því er erfitt að sannreyna hvort þeir beini sjónum sínum í raun og veru að þeim þáttum þar sem áhættan er mest. Á sama hátt eru reglur um ákvörðun viðbótarlauna óskýrar hjá mörgum stofnunum og einungis tæp 50% stofnana viðhafa starfsmannaviðtöl sem verður að teljast nokkuð lágt hlutfall. Eftirlit með aðkeyptri þjónustu er viðunandi en þó þarf að leggja ríkari áherslu á að fylgst sé með því að hún skili sér eins og til er ætlast. Vinnureglur um veitingu styrkja virðast einnig nokkuð á reiki.

Sjá nánar