Siðareglur í opinberri stjórnsýslu

Skýrsla til Alþingis

15.10.2003

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld og opinberar stofnanir víða um lönd samið sér sínar eigin siðareglur enda telja margir að slíkar reglur komi að góðum notum við að draga fram megingildi viðkomandi starfsemi, efla samkennd starfsfólks og fagleg vinnubrögð og auðvelda því að bregðast við siðferðilegum álitamálum á vinnustað. Sömuleiðis minnki þær hættuna á áföllum og hneykslismálum. Hér á landi hafa nú þegar um 15% opinberra stofnana sett sér siðareglur og margar aðrar stefna að því að setja slíkar reglur á næstu árum.

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrsluna Siðareglur í opinberra stjórnsýslu. Þar er annars vegar rætt nokkuð um þær siðareglur í opinberri stjórnsýslu sem Bretar og Bandaríkjamenn hafa sett og þær leiðbeiningar sem OECD hefur gefið út um hvernig hægt sé að stuðla að betra siðferði í stjórnsýslu aðildarríkjanna. Hins vegar er gerð grein fyrir spurningakönnun Ríkisendurskoðunar á umfangi siðareglna í opinberri stjórnsýslu hér á landi og viðhorfum forstöðumanna íslenskra ríkisstofnana til nokkurra valinna siðagilda.

Á síðustu árum hefur verið rætt talsvert um siðferði í opinberri stjórnsýslu, ekki síst í tengslum við ýmiss konar siðferðileg álitamál eða spillingu, og hefur Ríkisendurskoðun vakið athygli á nauðsyn þess að starfsmenn ríkisins fylgi tilteknum gildum og reglum í störfum sínum. Í könnun Ríkisendurskoðunar frá þessu sumri kemur fram að nú þegar hafa um 15% íslenskra ríkisstofnana sett sér slíkar reglur, flestar á árunum 1992-2003. Auk þess íhuga forstöðumenn um 40% annarra stofnana að setja reglur á næstu árum. Líkt og víða erlendis hefur yfirleitt verið lögð áhersla á að hafa starfsfólk með í ráðum við samningu siðareglna og eins hefur verið reynt að hafa reglurnar svo einfaldar að fólk geti lagt þær á minnið. Af þeim sem hafa siðareglur töldu um 41% að vinnulag hefði breyst til batnaðar eftir að reglurnar voru settar. Starfsfólk sé t.d. meðvitaðra um hlutverk sitt og hvað sé við hæfi.

Í könnun Ríkisendurskoðunar voru forstöðumenn ríkisstofnana sérstaklega spurðir um það hvaða siðagildi þeir teldu mikilvægust fyrir stjórnsýsluna í heild. Eftirfarandi fimm gildi voru oftast nefnd: Lögmæti, þjónusta í almannaþágu, heiðarleiki, sérfræðiþekking og óhlutdrægni. Fyrstu fjögur þessara gilda voru einnig talin mikilvægust þegar spurt var um stjórnun og rekstur eigin stofnunar en þar kom skilvirkni í stað óhlutdrægni. Þegar spurt var um mikilvægustu gildi við stjórnun og rekstur einkafyrirtækja voru fimm eftirfarandi oftast nefnd: Heiðarleiki, sérfræðiþekking, skilvirkni, einurð og lögmæti.

Forstöðumenn þeirra stofnana sem ekki hafa í hyggju að setja siðareglur gáfu oftast þau svör að í gildi væru aðrar reglur sem gætu talist ígildi siðareglna. Margir töldu einnig að ráðuneyti eða stjórnarráðið ætti að hafa frumkvæði að setningu slíkra reglna. Enn aðrir báru við tímaskorti. Flestir tóku þó jákvætt í hugmyndina um slíkar reglur enda auki þær líkur á að stofnanir nái markmiðum sínum.

Sjá nánar