Grunnskólakennarar. Fjöldi og menntun

Skýrsla til Alþingis

06.10.2003

Að mati Ríkisendurskoðunar verður nánast eða alveg unnt að manna íslenska grunnskóla með réttindakennurum skólaárið 2008-2009 þrátt fyrir að þá verði þörf fyrir fleiri kennara en hingað til hefur verið áætlað. Þegar þessu takmarki hefur verið náð er eðlilegt að skólayfirvöld fari að huga að því hvort rétt sé að lengja nám grunnskólakennara úr þremur árum í fjögur til samræmis við það sem tíðkast í flestum Evrópulöndum. Sömuleiðis þurfa þau að taka til athugunar hvernig heppilegast sé að standa að sí- og endurmenntun kennara sem æ ríkari þörf verður fyrir í framtíðinni.

Í skýrslu sinni Grunnskólakennarar. Fjöldi og menntun tekur Ríkisendurskoðun til endurmats spá um kennaraþörf í íslenskum grunnskólum til ársins 2010 sem nefnd á vegum menntamálaráðuneytis setti fram árið 1999. Í þeirri spá var áætlað að 3.805 kennara þyrfti til að manna skólana haustið 2009. Ríkisendurskoðun telur að 4.226 kennarar séu nær lagi og bendir m.a. á að íslensk grunnskólabörn munu væntanlega verða um 1.500 fleiri en gert var ráð fyrir í forsendum áðurnefndrar spár.

Þrátt fyrir þessa fyrirsjáanlegu fjölgun innan skólanna telur Ríkisendurskoðun miklar líkur á að réttindakennarar geti alveg eða nær alveg sinnt kennsluþörf þeirra haustið 2009 en í áðurnefndri spá var gert ráð fyrir því að 558 réttindakennara myndi vanta í 397 stöðugildi. Ríkisendurskoðun byggir þetta mat sitt einkum á nokkurri fjölgun réttindakennara innan skólanna undanfarin ár sem m.a. má rekja til minni þenslu í þjóðfélaginu, bættum launakjörum kennara og betri starfsaðstöðu. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að óvenju margir stunda kennaranám um þessar mundir, bæði í staðnámi og fjarnámi, og hafa kennaramenntunarskólar þurft að synja allnokkrum umsækjendum um skólavist. Þessi aukni áhugi á kennaranámi er þó enn ekki farinn að skila sér í fleiri útskrifuðum kennurum.

Í skýrslunni er fjallað nokkuð um kennaranám hér á landi, inntökuskilyrði fyrir slíkt nám, skipan þess og markmið. Til samanburðar var athugað hvernig staðið er að sams konar námi annar staðar í Evrópu og kom þá í ljós að það er víðast hvar lengra en hér. Ólíklegt er talið að í allra nánustu framtíð verði gerð krafa um að íslenskir grunnskólakennarar hafi meistaragráðu, þ.e. fimm ára háskólanám, eins og nú tíðkast víða í Evrópu. Það verður hins vegar að teljast eðlilegt að skólayfirvöld taki til athugunar hvort rétt sé að lengja kennaranámið úr þremur árum í fjögur eftir að því takmarki hefur verið náð að grunnskólarnir verði að mestu eða öllu leyti mannaðir með réttindakennurum. Rökin eru einkum þau að breytt þjóðfélag með síauknum kröfum til kennara krefjist mun fjölbreyttari þekkingar og reynslu þeirra en áður var.

Að lokum leggur Ríkisendurskoðun til að skólayfirvöld kanni hvort og hvernig þau geti svarað kröfum um aukin útgjöld á sviði sí- og endurmenntunar starfandi kennara og hvernig þessi menntun verði skipulögð þannig að hún auki skilvirkni kennarastarfsins. Ljóst er að endurmenntun mun í framtíðinni verða æ veigameiri þáttur í kennarastarfinu og í núgildandi kjara-samn-ingunum er kveðið á um að skólastjórar hafi frumkvæði að henni. Auk þess er nú gerð krafa um slíka menntun á og utan starfstíma skóla.

Sjá nánar