Veðurstofa Íslands

Skýrsla til Alþingis

14.07.2003

Að mati Ríkisendurskoðunar er meginstyrkur Veðurstofu Íslands jákvæð ímynd hennar og að hún hefur að jafnaði verið rekin í samræmi við fjárheimildir. Stofnunin þarf hins vegar að styrkja yfirstjórn sína og efla samstöðu hennar. Kveða þarf skýrar á um hlutverk hennar í lögum, endurskoða skipurit hennar og móta skýrar starfslýsingar og raunhæf árangurs­tengd markmið. Þá þarf stofnunin að leggja aukna áherslu á árangursmælingar og virkt gæða­eftir­lit í starfsemi sinni. Að lokum þarf hún að taka á ýmsum atriðum til að bæta almenna veðurþjónustu, bæði tækni­lega og fag­lega, svara kröfum samfélagsins um aukna ­þjónustu og efla grunn­rannsóknir og þróunarstarf í veðurfræði.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Veðurstofa Íslands. Stjórnsýsluendur­skoð­un (júlí), kemur fram að ekki hafi verið unnið að eiginlegri stefnu­mótun fyrir Veður­stofuna um langt skeið. Slíkt hlýtur þó að teljast brýnt verkefni, m.a. vegna breytts starfsumhverfis stofnunarinnar og breyttra þarfa þeirra sem nota þjónustu hennar. Innan umhverfisráðuneytisins er áformað að hefja endurskoðun á hlutverki, stefnu og lögum um Veðurstofuna og er mikilvægt að ráðist verði í það verkefni sem fyrst. Meðal annars er brýnt að setja stofnuninni skýr og mælanleg árangursmarkmið og kanna gaumgæfilega hvaða leiðir eru færar til þess að samræma þá veðurþjónustu sem opinberar stofnanir sinna. Þar má nefna veðurþjónustu við sjómenn sem Siglingastofnun hefur nokkurt frumkvæði að, svo og veðurþjónustu við vegfarendur sem Vegagerðin hefur sinnt. Þá væri ástæða til að kanna þann möguleika að fela Veðurstofunni ný verkefni, t.d. á sviði vatnamælinga. Slíkar mælingar virðast falla mjög vel að mörgum þeirra verkefna sem stofnunin sinnir, svo sem mælingum á veðri, úrkomumagni, snjósöfnun, jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum. Að lokum þarf að taka skýra afstöðu til þess að hve miklu leyti veðurþjónusta verði skilgreind sem samkeppnis­þjónusta og verðlögð í samræmi við það.

Skipulagi Veðurstofu Íslands var breytt árið 1994 eftir úttekt sem þá var gerð á starfsemi hennar. Nýju skipuriti var ætlað að einfalda verk- og vinnuferla, laga skipulagið betur að þeim verkferlum sem notaðir voru og koma allri þjónustu stofnunarinnar við notendur undir einn hatt. Í reynd hefur enn ekki tekist að laga starfsemi Veðurstofunnar að fullu að þessu skipuriti heldur hefur gamla skipulagið að hluta til verið fellt inn í það nýja. Gömul verkaskipting og gamlir deildarmúrar hafa því haldist bæði meðal yfirmanna og margra starfsmanna. Brýnt er að skipurit stofnunarinnar verði virkt og að það gefi lýsandi mynd af uppbyggingu og starfsemi stofnunarinnar. Úttekt­ Ríkisendurskoðunar leiðir m.a. í ljós að endurskoða þarf verkefni einstakra sviða stofnunarinnar, bæta verkferla og útbúa skýrar starfslýsingar fyrir sviðsstjóra og aðra starfsmenn. Þá er yfirstjórn Veðurstofunnar bæði veik og ósamstiga og kemur það niður á starfsemi stofnunarinnar. Efla verður samstöðu yfirstjórnarinnar og styrkja stoðir hennar undir stjórn veðurstofustjóra þannig að hægt verði að ráðast í þær úrbætur á starfseminni sem nauðsynlegar eru. Að lokum styðja viðhorfskönnun og viðtöl við starfsmenn þá fullyrðingu að endurskoða þurfi samskipta- og upplýsinga­ferli innan stofnunarinnar.

Sjá nánar