Framkvæmd búvörulaga. Samningar um framleiðslu sauðfjárafurða 1995-2000

Skýrsla til Alþingis

26.02.2002

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrslu um framkvæmd samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem var í gildi á tímabilinu 1995-2000. Skýrslan birtir niðurstöður úttektar sem unnin var að beiðni landbúnaðarráðuneytisins og var megintilgangur hennar að meta hversu vel markmið samningsins hefðu náðst. Helstu niðurstöður eru þær að framleiðni hafi aukist á samningstímabilinu samfara fækkun búa. Þannig hafi t.a.m. launakostnaður að baki hverju kílói kindakjöts lækkað á tímabilinu. Einnig hafi tekist að tryggja samkeppnishæfni framleiðslunnar því sala kindakjöts hafi aukist. Á hinn bóginn er bent á að það markmið samningsins að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda hafi ekki náðst sem skyldi. Þannig nægi afkoma sauðfjárbúa ekki til að greiða laun í samræmi við vinnuframlag. Á sama hátt hafi mistekist að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu afurða því framleiðslumagn hafi vaxið meira en sem nemur söluaukningu og birgðir séu enn miklar.

Samningurinn sem um ræðir var gerður af landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands á grundvelli laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Gildistími samningsins var frá 1. október 1995 til 31. desember 2000. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna samningsins nam um 10,5 milljörðum króna, þar af námu beingreiðslur ríflega 7 milljörðum. Kostnaður vegna samningsins var í samræmi við áætlun, enda þótt í einstökum atriðum hafi ráðstöfun fjármuna verið frábrugðin því sem reiknað var með í upphafi.

Markmið samningsins voru í fyrsta lagi að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslunnar, í öðru lagi að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda, í þriðja lagi að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða, og loks að stuðla að því að sauðfjárrækt væri stunduð á umhverfisvænan hátt. Þessum markmiðum átti að ná með því að gera verðlagskerfi framleiðslunnar frjálsara, með því að kaupa upp greiðslumark og endurúthluta því, og með því að styðja þá bændur sem vildu hætta búskap.

Úttekt Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að þótt fjöldi sauðfjár í landinu hafi haldist nær óbreyttur á samningstímabilinu, hefur búum með virku greiðslumarki fækkað um 208. Greiðslumark hefur þannig verið fært frá smærri búum til hinna stærri. Það hefur haft í för með sér aukna framleiðni sem m.a. birtist í því að launakostnaður að baki hverju framleiddu kílói kindakjöts hefur lækkað um rúm 16% á tímabilinu. Alls voru keypt um 13 þúsund ærgildi og rúmlega 20 þúsundum fjár var fargað. Öllum keyptum ærgildum var endurúthlutað.

Einnig kemur fram í skýrslunni að þrátt fyrir að verð kindakjöts til neytenda hafi hækkað um 17,5% á tímabilinu, hefur sala aukist um 4%. Það þýðir að mati Ríkisendurskoðunar að samkeppnishæfni framleiðslunnar hefur verið tryggð þrátt fyrir að verð annarra kjöttegunda hafi lækkað umtalsvert á tímabilinu.

Á hinn bóginn leiðir úttektin í ljós að frá því að verðlagning kindakjöts var gefin frjáls árið 1998 hefur verð afurða til framleiðenda farið lækkandi. Í heild lækkaði verð til framleiðenda um 6% á samningstímabilinu. Samkvæmt mati stofnunarinnar hefði verðið hins vegar hækkað um 10% á tímabilinu ef opinber verðstýring hefði verið við lýði allt tímabilið. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður, fjármagnsgjöld og afskriftir hækkað umtalsvert. Þó svo að heildartekjur búanna (þ.m.t. bæði greiðslur afurðastöðva og beingreiðslur ríkisins) hafi vaxið um 17,5% að meðaltali á samningstímabilinu, fer fjarri því að þær hafi nægt til að tryggja bændum laun í samræmi við vinnuframlag. Samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar hefur afkoma búanna á samningstímabilinu að meðaltali eingöngu nægt til að standa undir helmingi af árlegum launakostnaði þeirra.

Í skýrslunni er bent á að þrátt fyrir aukna sölu kindakjöts hafi framleiðslan aukist meira en sem henni nemur. Þannig hafi birgðir vaxið um 63% frá árinu 1998 og ljóst sé að birgðastaðan sé að verða svipuð og hún var í upphafi samningstímabilsins. Aukna framleiðslu kindakjöts megi rekja til þess að framleiðsla sé í reynd frjáls og bætt árferði ásamt vilja framleiðenda til að auka útflutning hafi leitt til framleiðsluaukningar.

Loks kemur fram í skýrslunni að um 75 milljónum króna hafi verið varið til verkefna sem hafi haft að markmiði að stuðla að umhverfisvernd. Að mati Ríkisendurskoðunar skiluðu þessi verkefni góðum árangri.

Sjá nánar