Úttekt á Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu lokið

Skýrsla til Alþingis

13.12.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Rekstur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í járnum frá stofnun. Embættið er langstærsta sýslumannsembætti landsins og varð til við sameiningu sýslumannsembættanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði árið 2015. Það þjónar um 64% landsmanna en fær 39% þeirra fjárveitinga sem markaðar eru sýslumönnum í fjárlögum.

Ríkisendurskoðun telur að fara þurfi yfir verkefni og skyldur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og meta mannaflaþörf, m.a. í ljósi starfseminnar á landsvísu og skiptingu fjárveitinga milli sýslumannsembætta. Mikilvægt er að skýra betur hver kjarnaverkefni embættisins eru og hvert þjónustustig þess eigi að vera. Enn fremur þarf að efla gæðamál hjá embættinu og auka heildaryfirsýn um stöðu mála.

Þá beinir Ríkisendurskoðun því til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að vinna þurfi á óásættanlegum biðtíma, tryggja stöðugleika í málsmeðferðartíma tiltekinna mála og skjalfesta verkferla og innra eftirlit.

Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér

Mynd með frétt