Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

13.12.2021

Ríkisendurskoðun ákvað að eigin frumkvæði og á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að hefja stjórnsýsluúttekt á embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Úttektin var gerð í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar Sýslumenn – samanburður milli embætta sem kom út í mars 2019. Samhliða var ársreikningur embættisins fyrir árið 2020 endurskoðaður. 

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar beindist að starfsemi og skipulagi embættisins. Horft var til verkefna þess, hvort hagkvæmni og skilvirkni væri gætt í starfseminni og hvort árangur væri í samræmi við sett markmið. Þá var sjónum beint að fjárhagsbókhaldi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og meðferð opinbers fjár í því sambandi.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Málsmeðferð og stjórnsýsla
  Vinna þarf á óásættanlegum biðtíma og málsmeðferðartíma í vinnslu tiltekinna fjölskyldumála og tryggja stöðugleika í málsmeðferðartíma þinglýsinga. Umbætur eru í gangi en gera þarf enn betur til að ná þeim árangri sem lög mæla fyrir um. Þá þarf að lagfæra málsmeðferð þinglýsingaskjala með ágöllum strax. 
   
 2. Umbóta- og gæðastarf
  Efla þarf gæðamál hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Auka þarf heildaryfirsýn um stöðu mála, bæta verkferla og skilgreina mælikvarða um ásættanlegan árangur sem hægt er að fylgja eftir. 
   
 3. Innra eftirlit
  Skjalfesta þarf helstu verkferla og innra eftirlit tengt bókhaldi og fjárreiðum. Einnig þarf að skoða aðgangsheimildir starfsfólks í Orra (upplýsinga og fjár-hagskerfi ríkisins) og hjá viðskiptabanka m.t.t. verkefna sem starfsfólk þarf að leysa af hendi og loka aðgangi starfsfólks sem látið hefur af störfum.
   
 4. Nettun tekna og launagjalda 
  Greiðslur vegna eftirlits með heimagistingu, kostnaður vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu á höfuðborgarsvæðinu í forsetakosningum og greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði hafa ranglega verið færðar  til lækkunar á launagjöldum í bókhaldi embættisins. Þetta þarf að leiðrétta og færa sem tekjur sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um bókhald nr. 145/1994.
   
 5. Geymslufjárreikningar
  Setja þarf verkferla og vinnulýsingar í tengslum við stofnun og lokun geymslufjárreikninga sem og um meðferð þeirra fjármuna sem geymdir eru á reikningunum. Gögn þ.m.t. samþykki að baki uppgjöri þurfa að fylgja með beiðni til bókhalds/gjaldkera til staðfestingar réttmætri útgreiðslu af reikningum. Þá þarf að bæta eftirlit með framvindu og stöðu eldri mála.  
   
 6. Stefnumótun til framtíðar
  Skilgreina þarf betur kjarnaverkefni og þjónustustig Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að treysta betur rekstrargrundvöll embættisins. Rýna þarf ítarlega þær tillögur sem lagðar hafa verið fram bæði af hálfu sýslumanns og dómsmálaráðuneytis um aukna skilvirkni s.s. með breytingu á málsmeðferð eða gjaldskrá. Þá þarf að horfa á verkefni allra sýslumanna á landinu sem eina heild og færa verkefni á milli einstakra embætta þannig að aukin sérhæfing skapist og létta álagi þar sem það er mest. 
   
 7. Stafræn þróun
  Halda þarf áfram á stafrænni vegferð og efla hana eins og kostur er. Töluverður árangur hefur þegar náðst með tilkomu rafrænna eyðublaða en enn á eftir að efla starfskerfin svo þau nái að þjóna tilgangi sínum sem best. Þá hefur innleiðing rafrænna þinglýsinga dregist úr hömlu. Einnig er nauðsynlegt að viðskiptavinum verði gefinn kostur á að afgreiða sig sjálfa með afrit skjala o.fl. án þess að þurfa að bíða dögum saman eftir einfaldri afgreiðslu. 

Rekstur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í járnum frá stofnun. Embættið er langstærsta sýslumannsembætti landsins og varð til við sameiningu sýslumannsembættanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði árið 2015. Það þjónar um 64% landsmanna en fær 39% þeirra fjárveitinga sem markaðar eru sýslumönnum í fjárlögum. Þá er hlutfall starfsmanna á hverja 10.000 íbúa töluvert lægra en hjá öðrum embættum. Af þessum sökum telur embættið sig vera fjársvelt og hefur það reglulega vakið athygli dómsmálaráðuneytis á þeirri stöðu við gerð fjárhagsáætlana og í greinargerðum til ráðuneytis. 

Rekstur embættisins
Talsverð álagsmerki má finna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsánægja mælist lág í samanburði við sambærilegar stofnanir og töluvert er um fjarvistir vegna veikinda. Starfsmannavelta er þó ekki há. 

Á undanförnum árum hafa verið dæmi um mjög langan biðtíma í vinnslu þinglýsinga og tiltekinna fjölskyldumála og telur Ríkisendurskoðun að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þurfi að gefa gæðamálum meiri gaum. Engin heildargæðahandbók er til staðar og verkbókhald takmarkað. Þá hefur gengið hægt að endurnýja starfskerfi og innleiða rafræna þjónustu til að auka skilvirkni en töluverð áhersla er lögð á þessa þætti til framtíðar svo auka megi hagkvæmni og skilvirkni í starfsemi sýslumannsembætta landsins. 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er nær eingöngu fjármagnaður með framlagi úr ríkissjóði. Um 82% framlagsins renna til greiðslu launa og tæp 10% fara í húsnæðiskostnað. Embættinu er því þröngur stakkur skorinn hvað varðar möguleika á þróun og umbótastarfi. Þessu til viðbótar hefur fjármögnun nýrra verkefna ekki alltaf verið tryggð að fullu og dæmi eru um að nýjum verkefnum í fjölskyldumálum hafi ekki fylgt fjármagn.

Ríkisendurskoðun bendir á að fara þurfi yfir verkefni og skyldur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og meta mannaflaþörf, m.a. í ljósi starfseminnar á landsvísu og skiptingu fjárveitinga milli sýslumannsembætta. Mikilvægt er að skýra betur hver kjarnaverkefni embættisins eru og hvert þjónustustig þess eigi að vera. Almennt þarf að fara yfir verkaskiptingu sýslumannsembætta og svigrúm þeirra til sérhæfingar innan ákveðinna málaflokka. Ríkisendurskoðun áréttar að hafin verði almenn heildarendurskoðun á stöðu og verkefnum allra sýslumannsembætta eins og lagt var til í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2019, en þar voru málefni þeirra til umfjöllunar. Skýrsla dómsmálaráðuneytisins frá mars 2021 er skref í þeirri umbótaátt.

Skoðun á rekstraliðum í ársreikningi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 leiddi í ljós að ranglega var farið með greiðslur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem umræddar greiðslur voru færðar til lækkunar á launakostnaði embættisins í stað þess að tekjufæra þær. Þá eru ekki til skriflegar verklagsreglur um meðferð geymslufjárreikninga og æskilegt er að ítarlegri gögn berist bókhaldi til staðfestingar á heimild til útborgunar af slíkum reikningum.

Aðkoma dómsmálaráðuneytis 
Dómsmálaráðuneyti hefur brugðist við auknu álagi í rekstri Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu m.a. með því að færa verkefni tímabundið til annarra sýslumannsembætta. Einnig hafa fjárheimildir til málaflokksins verið hækkaðar. Þá fékk Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sérstakar fjárheimildir til að bregðast við hallarekstri á árunum 2016 og 2020. 

Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom í ljós að dómsmálaráðuneyti hefur á undanförnum árum fundist skorta nægjanlegar skýringar og svör um skipulag og rekstur embættisins. Þannig hefur ráðuneytið ekki talið sig fá fullnægjandi svör varðandi ráðstöfun fjármuna sem embættinu hefur verið úthlutað og brugðist við með því að láta gera sérstaka athugun á skilvirkni, starfsemi og verkefnaálagi hjá embættinu.

Nýr sýslumaður tók við embættinu í byrjun árs 2021 og hefur dómsmálaráðuneyti komið til aðstoðar við embættisskiptin, einkum hvað varðar fjárhagsleg mál og gerð ársreiknings. Er því tækifæri fyrir embættið og ráðuneytið að stilla betur saman strengi og bæta úr hugsanlegum annmörkum á upplýsingagjöf milli þeirra. Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að dómsmálaráðuneyti og sýslumaður vinni saman að því að greina betur þau verkefni og skyldur sem embættið fer með, til að treysta rekstrargrundvöll þess. 

Málsmeðferð og biðtími
Dæmi eru um óásættanlegan biðtíma í meðferð ýmissa málaflokka hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. fjölskyldumála og þinglýsingamála. Embættið réðst í skipuritsbreytingar snemma árs 2020 m.a. til að bregðast við aðstæðum og þá hefur nýr sýslumaður innleitt breytingar á verklagi og fjölgað löglærðum fulltrúum. Hefur þetta skilað árangri í aukinni skilvirkni en áfram þarf að vinna með markvissum hætti að því að ná málsmeðferðartíma niður og tryggja stöðugleika í málsmeðferð. Jafnframt þarf að auka  yfirsýn um verkefnin, bæta verkferla og rýna hvar mögulegt er að gera betur. Þá þarf að leggja aukna áherslu á gæðamál og skráningu ferla. 

Breyta þarf málsmeðferð tiltekinna mála, s.s. þinglýsingarmála, þar sem skjöl með ágöllum eru sett til hliðar og viðskiptavinir ekki upplýstir um ágallana fyrr en skjalanna er vitjað. Slík málsmeðferð samræmist ekki leiðbeiningaskyldu stjórnvalda og úr því þarf að bæta strax. Sýslumanni ber að hafa frumkvæði að því að hafa samband við viðskiptavini þegar upplýsingum er ábótavant eða bæta þarf úr ágöllum þeirra gagna sem viðskiptavinir leggja fram.

Stefnumótun og framtíðarsýn
Aukin rafræn þjónusta, miðlæg þjónusta og niðurfelling umdæmismarka er stef í nýrri stefnumótun dómsmálaráðuneytis um sýslumannsembættin. Jafnframt er litið til þess að bæta þurfi stjórnun og rekstur m.a. með því að styrkja sýslumannaráð þannig að það hafi vald til að taka af skarið í mikilvægum verkefnum og geti verið leiðandi í stefnumótun. Gert er ráð fyrir að stefnumörkuninni verði fylgt eftir með því að efla bæði stafræna þjónustu og sýslumannaráð ásamt því að endurskoða löggjöfina sem um verkefnin og umdæmismörk embættanna gilda. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur hér verið stigið skref í átt að því að skilgreina betur hlutverk og þjónustustig sýslumannsembætta eins og bent var á að væri mikilvægt í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2019. Halda þarf áfram á sömu braut svo hægt sé að tryggja betur rekstrargrundvöll Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem og annarra sýslumannsembætta í landinu.

Lykiltölur

Fjárheimildir m.v. íbúafjölda árið 2020
Tekjur (í m.kr.)
Gjöld (í m.kr.)
Starfsfólk
Stjórnendur
Málsmeðferðartími almennra skjala í þinglýsingu 2019-21