Úttekt á lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk

Skýrsla til Alþingis

13.12.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á innleiðingu og framkvæmd sveitarfélaga á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Skýrslan var unnin að beiðni félagsmálaráðuneytis í tengslum við vinnu starfshóps á vegum ráðuneytisins um heildarendurskoðun laganna.

Í lögum nr. 38/2018 er leitast við að mæta kröfum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í lögunum eru settar fram nýjar áherslur um aðgengi að þjónustu, sérstaklega hvað varðar sértækar stuðningsþarfir. Í þessum nýju áherslum felast áskoranir og tækifæri samhliða því að upp hafa komið ýmis álitamál og þá hefur óvissa ríkt um framkvæmd tiltekinna þátta.

Almennt má draga þá ályktun að innleiðing laganna og framkvæmd þjónustunnar hafi í meginatriðum verið í samræmi við markmið laganna. Gögn frá sveitarfélögum benda til að það miði í rétta átt þrátt fyrir ýmis álitaefni og áskoranir.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að sveitarfélög ljúki uppfærslu á reglum þar sem það hefur dregist og endurskoði samsvarandi upplýsingar um reglur og málmeðferð á vefsíðum sveitarfélaga. Þá eru óleyst mikilvæg álitamál s.s. um fjármögnun ríkisins vegna NPA samninga. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að leggja þurfi aukna áherslu á innra eftirlit þjónustuveitenda og að skilja þurfi betur á milli áherslna í ytra og innra eftirliti.

Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér

Mynd með frétt