Úttekt um Innheimtustofnun sveitarfélaga kynnt

Skýrsla til Alþingis

21.10.2022

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Innheimtustofnun sveitarfélaga sem byggir á samningi milli embættisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (nú innviðaráðuneyti) frá september 2021. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu niðurstöður úttektarinnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag.

Úttektin beindist annars vegar að greiningu á núverandi skipulagi, rekstri og kostnaði við verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga og hins vegar að greiningu á því með hvaða hætti verkefnunum getur best verið fyrir komið í starfsemi sem fellur innan A-hluta ríkissjóðs. Liður í því var að skoða stöðu kröfusafnsins og tengsl þess við rekstur stofnunarinnar.

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafa ekki fallið undir eftirlit Ríkisendurskoðunar og því er ekki um hefðbundna stjórnsýsluúttekt að ræða. Meðan á vinnslu skýrslunnar stóð vakti Ríkisendurskoðun athygli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga á meintri háttsemi stjórnenda Innheimtustofnunar. Ný stjórn stofnunarinnar vék viðkomandi stjórnendum frá störfum og kærði þessa meintu háttsemi til lögreglu. Þar sem málið er nú til rannsóknar hjá héraðssaksóknara er ekki fjallað nánar um það í skýrslunni.

Ríkisendurskoðun leggur fram fjórar tillögur í skýrslunni. Lagt er til að ábyrgð á innheimtu meðlaga verði endurskilgreind og að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falin ábyrgð á verkefninu. Þá er lagt til að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falið að meta þau verðmæti sem felast í kröfusafni stofnunarinnar, en í því sambandi telur embættið rétt að kröfusafnið í heild flytjist til ríkisins með samkomulagi við eigendur Innheimtustofnunar. Endanlegt uppgjör vegna kröfusafnsins fari þá fram að tilteknum tíma liðnum. Enn fremur er lagt til að gerð verði sérstök greining á gagnagrunni núverandi innheimtukerfis, sem og þeim kerfum sem til staðar eru hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, eftir atvikum í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins. Loks er lagt til að viðtökuaðili verkefnanna, í samráði við ráðuneyti, marki stefnu um framkvæmd innheimtu meðlaga með skilgreindum mælikvörðum um árangur. Í því sambandi þarf m.a. að endurskoða lagaumhverfi meðlagsinnheimtu, skjalfesta verklagsreglur og koma á tilhlýðilegu gæðakerfi.

Sjá nánar skýrsluna: Innheimtustofnun sveitarfélaga - stjórnsýsluúttekt

Mynd með frétt