Hlutastarfaleið – úttekt Ríkisendurskoðunar

Skýrsla til Alþingis

28.05.2020

Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt úttekt á svokallaðri hlutastarfaleið sem eru atvinnuleysisbætur greiddar launamönnum vegna minnkaðs starfshlutfalls á grundvelli laga nr. 23/2020.

Niðurstaða úttektarinnar leiðir í ljós að alls hafa rúmlega 37 þúsund manns fengið atvinnuleysisbætur samkvæmt þessu úrræði sem starfa hjá 6.436 vinnuveitendum. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þessa stefnir í að verða nálægt 31 ma.kr. á árinu 2020. Jafnframt er ljóst að almennt aukið atvinnuleysi og hlutastarfaleiðin geri það að verkum að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs gætu orðið allt að 84 ma.kr. á árinu. Er það 56 ma.kr. hærra en áætlað var í upphafi ársins 2020.

Ríkisendurskoðun bendir á að einstaklega erfiðar aðstæður sem vart eiga sér hliðstæðu hafi kallað á skjótar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við launafólk í landinu og vinnuveitendur þeirra. Allt að einu er ljóst að úrræðið er opið og mikilvægt að umgjörð þess sé gerð skýrari en verið hefur. Þá þarf eftirlit með notkun þess að verða skilvirkara en verið hefur.

Er úttekt þessi hluti af nýjum áherslum Ríkisendurskoðunar sem felast í auknu samtímaeftirliti með fjárreiðum ríkisins og hvernig ráðstöfun og meðferð opinbers fjár er háttað.

Sjá nánar

Mynd með frétt