Hlutastarfaleið, atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls

28.05.2020

Ríkisendurskoðun ákvað að eigin frumkvæði að hefja samtímaeftirlit með efnahagsaðgerð stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er snýr að hlutastarfaleiðinni. Ákvörðun Ríkisendurskoðunar að hefja stjórnsýsluendurskoðun á úrræðinu og framkvæmd þess var tilkynnt félagsmálaráðuneyti og Vinnumálastofnun þann 11. maí 2020. Í úttekt þessari voru kannaðar forsendur, framkvæmd og árangur hlutastarfaleiðar stjórnvalda.

Hlutastarfaleiðin (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Nýting hlutastarfaleiðar
Þann 20. mars 2020 var hlutastarfaleiðin lögfest vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar og þann 15. maí sama ár höfðu 37 þúsund launamenn og 6.436 vinnuveitendur nýtt hlutastarfaleiðina. Í mars og apríl voru 11,6 ma.kr. greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna úrræðisins. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að útgreiðslur vegna hlutabóta geti orðið um 30,7 ma.kr. árið 2020. Að teknu tilliti til aukins atvinnuleysis verði útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 83,9 ma.kr. sem er 56,5 ma.kr. hærra en áætlað var í upphafi árs.

Lögformlega felur hlutastarfaleiðin í sér aukinn rétt launamanna til atvinnuleysisbóta en ekki rétt fyrirtækja til stuðningsgreiðslna frá ríkissjóði. Engu að síður er ljóst að úrræðið getur lækkað launakostnað vinnuveitenda verulega og var því m.a. ætlað að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja sem orðið höfðu fyrir samdrætti. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun höfðu 85% þeirra vinnuveitenda sem nýttu hlutastarfaleiðina fram til 15. maí 2020 gert samkomulag við 1‒ 6 starfsmenn um hlutastarf. Þá hafði 31 fyrirtæki samið við fleiri en 100 starfsmenn. Í 89% þeirra tilvika sem vinnuveitandi nýtti hlutastarfaleiðina voru heildargreiðslur til launamanna lægri en 3 m.kr. Eitt fyrirtæki sker sig úr bæði hvað varðar fjölda starfsmanna á hlutastarfaleiðinni og fjárhæð greiðslna en í mars og apríl greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 926 m.kr í hlutabætur vegna 2.493 starfsmanna Icelandair ehf. Heildargreiðsla vegna hlutabóta til starfsmanna móðurfélags flugfélagsins, Icelandair Group hf., nam 1.116 m.kr. vegna 3.318 starfsmanna.

Opið úrræði
Allt bendir til þess að hlutastarfaleiðin hafi nýst til að tryggja framfærslu launamanna, styðja við vinnuveitendur vegna samdráttar og viðhalda ráðningarsambandi. Það hefur þó komið í ljós að þrátt fyrir áherslu stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur virðist að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin. Nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt um að horfið verði frá nýtingu hlutastarfaleiðar og önnur boðað endurgreiðslu á framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ekki er þó ljóst hvort og þá hvernig sú endurgreiðsla eigi að eiga sér stað. Þá vekur athygli að sveitarfélög og opinberir aðilar hafa nýtt sér úrræðið þrátt fyrir að lögskýringargögn beri með sér að úrræðið hafi verið ætlað fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra.

Ríkisendurskoðun bendir á að fordæmalausar efnahagsaðstæður hafa kallað á skjót viðbrögð stjórnvalda til að styðja við vinnuveitendur og útvíkka rétt launamanna til atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir það er brýnt að haft sé eftirlit með nýtingu ríkisfjár, að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs og að útgreiðslur úr honum taki mið af vilja löggjafans.

Umfang og kostnaður
Í frumvarpi um framlengingu hlutastarfaleiðarinnar er bent á að ef ekki hefði komið til þessa úrræðis hefði mögulega þurft að mæta sama kostnaði annars staðar í rekstri hins opinbera. Má þar vísa til framfærslukostnaðar sveitarfélaga en einnig úrræða um greiðslu launa á uppsagnarfresti. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að óvissa ríkir um þróun rekstrarskilyrða og efnahag einstakra fyrirtækja og alls óvíst hvort og hversu mikill kostnaður hefði fallið á ríkissjóð ef ekki hefði komið til hlutastarfaleiðarinnar. Þetta á sérstaklega við í tilfellum þar sem fyrirtæki með öflugan rekstur og sterkan efnahag nýttu sér úrræðið.

Hert skilyrði fyrirhuguð vegna framlengingar úrræðisins
Frumvarp um framlengingu hlutastarfaleiðarinnar hefur verið lagt fram á Alþingi. Í því felast m.a. hert skilyrði um fjárhag og rekstur viðkomandi vinnuveitanda ásamt hlutlægum viðmiðum m.a. um tekjufall. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem stuðla að auknu aðhaldi og gagnsæi og renna styrkari stoðum undir eftirlit Vinnumálastofnunar. Ljóst er að fyrirtæki hafa nýtt sér leiðina þrátt fyrir að eiga ekki í bráðum rekstrar- eða greiðsluvanda.

Ríkisendurskoðun telur að fullt tilefni hafi verið fyrir stjórnvöld að endurskoða framkvæmd hlutastarfaleiðarinnar og bregðast við, enda sé þannig leitast við að úrræðið sé eingöngu nýtt af þeim aðilum sem því er ætlað að aðstoða.

Afturvirkar breytingar á staðgreiðslu opinberra gjalda
Samkvæmt upplýsingum frá embætti Ríkisskattstjóra hafa um 160 launagreiðendur óskað eftir hækkun á áður tilkynntum launum í janúar og febrúar. Heildarhækkun á launum fyrir þessa tvo mánuði nemur rúmum 114 m.kr. Umræddar hækkunarbeiðnir eru bæði hærri og fleiri en í venjulegu árferði. Ríkisendurskoðun telur að kanna þurfi nánar ástæður fyrir umræddum hækkunum.

Eftirlit Vinnumálastofnunar mikilvægt
Allt frá því að Vinnumálastofnun opnaði fyrir umsóknir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli var áhersla stofnunarinnar á að tryggja framkvæmd úrræðisins umfram eftirlit. Stofnunin hefur boðað að eftirlit verði aukið eftir því sem álag á framlínuþjónustu minnkar. Mikilvægt er að Vinnumálastofnun hafi eftirlit með því að þeir vinnuveitendur sem nýta sér hlutastarfaleiðina uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í nýju frumvarpi um framlengingu úrræðisins.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað. Kanna þarf m.a. hvort vinnuveitendur uppfylli tiltekin skilyrði um rekstur, fjárhag og fjárhagsskuldbindingar.

Lykiltölur

Vinnuveitendur með tiltekinn fjölda launamanna í hlutastarfaleið og greiðslur í mars og apríl
Kynjaskipting
Aldursskipting
Atvinnuleysisbætur