Eftirfylgni: Ríkisútvarpið ohf., rekstur og aðgreining rekstrarþátta

06.02.2023

Í skýrslunni Ríkisútvarpið ohf. Rekstur og aðgreining rekstrarþátta (nóvember 2019) fjallaði Ríkisendurskoðun, að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis, um bókhald Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) og þá með hliðsjón af skilyrðum 4. gr. tilskipunar ESB nr. 2006/111 EB sem tók gildi með reglugerð nr. 430/2008 og ákvæði í kafla 6.4 í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) 35/10/COL um beitingu ríkisaðstoðarreglna gagnvart rekstri útvarpsþjónustu í almannaþágu. Einnig var tekið til skoðunar hvort Ríkisútvarpið hefði fylgt ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þau ákvæði fjalla annars vegar um aðra starfsemi en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og hins vegar um fjárhagslegan aðskilnað slíkrar starfsemi frá almannaþjónustuhlutanum. Sjá nánar upphaflega skýrslu.

Ríkisútvarpið ohf., rekstur og aðgreining rekstrarþátta - eftirfylgni (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Úttektin var unnin að ósk mennta- og menningarmálaráðuneytis sem bað um að fjallað yrði um bókhald Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) með hliðsjón af ákvæðum sem innleidd hafa verið úr evrópskum rétti um beitingu ríkisaðstoðarreglna gagnvart útvarpsþjónustu í almannaþágu. Einnig var skoðað hvort Ríkisútvarpið hefði fylgt tengdum ákvæðum laga um aðra starfsemi en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og fjárhagslegan aðskilnað slíkrar starfsemi.

Lagðar voru fram fjórar tillögur til úrbóta. Þrjár þeirra voru á ábyrgðarsviði RÚV og fjölluðu m.a. um lagaskyldu til að stofna dótturfélag fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu og að í því samhengi þyrfti að tekju- og gjaldfæra viðskiptaboð með viðeigandi hætti. Þá var bent á að efla þyrfti fjárhagslegt eftirlit stjórnar. Ein tillaga beindist að mennta- og menningarmálaráðuneyti um að fjármála- og efnahagsráðuneyti ætti að fara með hlut ríkisins í RÚV enda væri æskilegt að skilja á milli eigenda- og faglegrar ábyrgðar.

Brugðist hefur verið við með úrbótum og fjallað um tillögu Ríkisendurskoðunar varðandi eignarhald á RÚV. Kjarninn í úrbótunum felst í að RÚV sala ehf. var stofnað sem dótturfélag Ríkisútvarpsins ohf., í samræmi við ákvæði laga. Félagið hóf starfsemi 1. janúar 2020 og reikningsskil eru í dag í samræmi við ólík hlutverk þeirra. Þá hefur RÚV gripið til ráðstafana til að stjórn fái upplýsingar með reglubundnum hætti varðandi fjárhag og rekstur félagsins.

Starfshópur ráðuneytis fjallaði um þá tillögu Ríkisendurskoðunar að fjármála- og efnahagsráðu-neyti eigi að fara með hlut ríkisins í RÚV. Starfshópurinn tók ekki afstöðu um hvort breyta skuli eignarhaldinu og vísar í skýrslu sinni til Alþingis með ákvarðanir þar um. Í skýrslu starfshópsins kemur einnig fram að rétt sé að setja hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn í RÚV. Við athugun Ríkisendurskoðunar kom fram að búið sé að birta drög á vegum framkvæmdastjórnar ESB sem lúta að hæfisskilyrðum stjórnarmanna og að ráðuneytið fylgist með þróun þessara mála.