Ofanflóðasjóður - rekstur og stjórnsýsla

22.05.2024

Í lok árs 2023 ákvað Ríkisendurskoðun, á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að hefja að eigin frumkvæði stjórnsýsluúttekt á Ofanflóðasjóði. Úttektarefni er valið á þeim forsendum að það eigi erindi við samtímann, falli vel að samfélagslegri umræðu og að upplýsingarnar og framsetning þeirra hafi virði fyrir lesendur.

Ríkisendurskoðun tilkynnti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Ofanflóðanefnd þann 3. janúar 2024 að ráðist yrði í úttektina. Embættið ákvað að úttektin skyldi fylgja nýju verklagi þess um hraðúttektir. Markmið hraðúttekta er að veita skýrar og áreiðanlegar upplýsingar með skjótum hætti.

Ofanflóðasjóður - rekstur og stjórnsýsla (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Tryggja þarf fullnægjandi heimtur ofanflóðagjalds
  Hefja þarf eftirlit með innheimtu ofanflóðagjalds svo að tryggja megi fullnægjandi heimtur ríkissjóðs. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti þarf að tryggja fullnægjandi lagastoð fyrir setningu reglugerðar um álagningu, innheimtu og skil gjaldsins.
   
 2. Skýra þarf hlutverk og stöðu Ofanflóðanefndar
  Tímabært er að uppfæra lög nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og reglugerðir og verklagsreglur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis sem á þeim byggja. Skerpa þarf á ákvæðum er varða hlutverk og verkefni Ofanflóðanefndar svo að ekki leiki vafi á því hvernig hún skuli inna störf sín af hendi. 

  Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að skoða gaum-gæfilega hvernig stjórnsýslu ofanflóðamála sé best fyrir komið til framtíðar. 
   
 3. Tryggja þarf að kostnaðarþátttaka sé í samræmi við lög  
  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti þarf að tryggja að kostnaðarþátttaka Ofanflóðasjóðs í viðhaldsverkefnum sé í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Árin 2013−2023 námu innheimtar tekjur af svonefndu ofanflóðagjaldi 29,7 ma. kr. Fjárheimildir og fjárveitingar úr ríkissjóði til Ofanflóðasjóðs námu 17,7 ma. kr. Virkt eftirlit sem styður við skilvirka og fullnægjandi innheimtu ofan-flóðagjalds er ekki til staðar hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Það hefur ekki sannreynt að gjaldið sé greitt af öllum brunatryggðum fasteignum hér á landi og hefur ekki sett áður boðaða reglugerð um innheimtu.

Framkvæmdum til varnar ofanflóðum hefur miðað hægar en áætlað var þegar lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tóku gildi árið 1997. Öllum framkvæmdum til varnar íbúðarhúsnæðis á svæðum með mestu stað-aráhættuna átti að vera lokið árið 2010. Ráðuneytið áætlar nú að verklok verði í fyrsta lagi fyrir árslok 2033. Til þessa hefur einungis tekist að ljúka rúmlega helmingi þeirra verkefna sem þarf til svo að öll íbúðarhús á hættu-mestu svæðum í þéttbýli séu varin. 

Heildarkostnaður Ofanflóðasjóðs vegna undirbúnings og nýframkvæmda, uppkaupa fasteigna, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og tengdra rannsókna árin 2015−2023 nam 12,8 ma. kr. Sjóðurinn greiddi í öllum tilfellum hæsta kost-naðarhlutfall sem honum er heimilt samkvæmt lögum við undirbúning og gerð varnarvirkja, uppkaup fasteigna og viðhald árin 2013−2023. 

Árin 2013−2023 námu lánveitingar Ofanflóðasjóðs til sveitarfélaga samtals 1,5 ma. kr. Ekkert mat fer fram á því hvort sveitarfélagi sé fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut og engar verklagsreglur um lánveitinga-ferlið eru til hjá ráðuneytinu eða Ofanflóðanefnd.

Forgangsröðun framkvæmda Ofanflóðasjóðs hefur að mestu ráðist af tíma-röð tillagna sveitarstjórna til Ofanflóðanefndar. Áætlaður hönnunar- og framkvæmdakostnaður sjóðsins árin 2024−2030 nemur 32,1 ma. kr. Fjár-veitingar úr ríkissjóði til sjóðsins þurfa að hækka umtalsvert svo að sú áætlun standist.

Ofanflóðanefnd og ráðuneytið greinir á um hlutverk nefndarinnar er viðkemur málefnum ofanflóðavarna og eftirliti með framkvæmdum. Nefndin telur að ráðuneytið hafi ekki veitt henni nauðsynlegar upplýsingar um m.a. stöðu framkvæmda og ráðstafanir á fé sjóðsins. Að mati ráðuneytisins hefur stjórnsýsla málaflokksins verið í samræmi við gildandi regluverk. Ráðuneytið þarf að tryggja skilvirka og fullnægjandi upplýsingagjöf til nefndarinnar. Það hefur boðað að skerpt verði á ákvæðum laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er varða hlutverk nefndarinnar.

Stjórnsýsluleg staða Ofanflóðanefndar er ekki nægjanlega skýr. Tímabært er að uppfæra lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og reglugerðir og verklagsreglur ráðuneytisins sem á þeim byggja í ljósi aldurs þeirra en einnig til að auka skýrleika. 
 

Lykiltölur

Innheimt ofanflóðagjald
Lánveitingar og afskriftir Ofanflóðasjóðs
Heildarkostnaður vegna varnarráðstafana Ofanflóðasjóðs
Kostnaður Ofanflóðasjóðs vegna hættumats