Endurskoðun ríkisreiknings 2019

04.11.2020

Ríkisreikningur vegna ársins 2019 var gefinn út 9. júlí 2020, undirritaður af fjármála- og efnahagsráðherra og fjársýslustjóra. Ríkisendurskoðandi áritaði reikninginn sama dag og er áritun hans á bls. 15 í ríkisreikningi. Undirritun allra var rafræn.

Ríkisreikningur vegna ársins 2019 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir endurskoðun á ríkisreikningi 2019. Framsetning hennar er með sama hætti og vegna ársins 2018. Endurskoðunin var unnin samkvæmt lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila

Niðurstaða endurskoðunarinnar er að sú að rekstur ríkissjóðs hafi gengið vel í öllum aðalatriðum á árinu 2019 og Í árslok hafi fjárhagur ríkisins verið traustur. Eiginfjárstaða ríkissjóðs er góð þar sem eignir standa undir skuldum og vel það en þó ólokið mati á stórum eigna- og skuldaliðum.

Skv. lögum um opinber fjármál átti innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSPAS) að ljúka með gerð ríkisreiknings fyrir árið 2019. Það hefur ekki gengið eftir og hefur reikningsskilaráð ríkisins heimilað tímabundna frestun á innleiðingu 6 staðla. Ljóst er að innleiðing sumra staðla, eins og varðandi samstæðuuppgjör, er mjög umfangsmikil og mun taka talsverðan tíma. Því er óljóst hvenær ríkisreikningur verður að fullu í samræmi við IPSAS.