Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á ríkisfjármál

17.02.2021

Ríkisendurskoðun ákvað að eigin frumkvæði að taka saman skýrslu um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á ríkisfjármál og framkvæmd fjárlaga. Horft var til þeirra viðbragðs- og mótvægisaðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til frá því faraldurinn skall á í mars 2020 og áhrifa þeirra á tekjur, gjöld og efnahag ríkissjóðs. Jafnframt var leitast við að leggja mat á áhrif faraldursins á tekjur og gjöld ríkisaðila.

Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á ríkisfjármál (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar á Íslandi og reynst bæði langvinnari og erfiðari viðureignar en búist var við í upphafi. Eftir að áhrifa faraldursins tók að gæta á Íslandi varð snarpur samdráttur í efnahagsumsvifum og við blasti hrun í ákveðnum atvinnugreinum og djúp efnahagskreppa. Sérstaklega hafa áhrifin verið alvarleg fyrir ferðaþjónustu og tengdar greinar en þar voru blikur þegar á lofti eftir samdrátt á árinu 2019 með fækkun ferðamanna. Afleiðingar efnahagsáfallsins hafa fyrst og fremst birst í versnandi afkomu fjölda fyrirtækja og stórauknu atvinnuleysi. Mikil óvissa ríkir um framvindu faraldursins, jafnt á Íslandi sem og á alþjóðavísu, og erfitt er að segja til um hvenær viðspyrna fæst og efnahagslífið getur farið að taka við sér.

Forsendubrestur og endurskoðun fjármálastefnu
Endurskoða hefur þurft gildandi fjármálastefnu vegna þess forsendubrests sem af faraldrinum hefur leitt og hafa breytingar á afkomu- og skuldamarkmiðum gert það að verkum að víkja hefur þurft skilyrðum 7. gr. laga um opinber fjármál til hliðar fyrir árin 2020-2022. Hallarekstur og skuldahlutfall hins opinbera munu verða töluvert umfram viðmið laganna og ljóst er að ekki muni takast að uppfylla markmið þeirra um jákvæðan heildarjöfnuð á tímabilinu. Stjórnvöld hafa brugðist við áskorunum faraldursins með því að beita opinberum fjármálum af fullum þunga til að vega á móti hagsveiflunni. Þannig hefur ekki hefur verið dregið úr umfangi opinberrar þjónustu, framkvæmda eða tilfærslukerfa þrátt fyrir mikla tekjurýrnun hins opinbera. Þvert á móti hafa stjórnvöld aukið útgjöld og frestað innheimtu tekna eða jafnvel fellt þær niður. Stefnir í að ríkissjóður verði rekinn með rúmlega 270 ma.kr. halla á árinu 2020 og um 264 ma.kr. halla á árinu 2021. Þannig gæti samanlagður halli í ár og á næsta ári orðið yfir 530 ma.kr.

Versnandi afkoma ríkissjóðs fyrir faraldurinn
Á árinu 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn kom til sögunnar, var ríkissjóður rekinn með 42,3 ma.kr. afgangi skv. ríkisreikningi og 84,4 ma.kr. afgangi árið 2018. Þar vega hins vegar þungt áhrif af rekstri dóttur- og hlutdeildarfélaga. Án þeirra áhrifa var 36 ma.kr. halli af starfsemi Ahluta ríkisins á árinu 2019 og 7 ma.kr. halli árið 2018.

Mótvægisaðgerðir eru ríkissjóði kostnaðarsamar
Stjórnvöld hafa gripið til fjölbreyttra mótvægisaðgerða í faraldrinum og svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum verið leyft að virka til fulls, annars vegar í gegnum aukin útgjöld vegna atvinnuleysis og hins vegar í formi minni skattheimtu. Fyrirsjáanlegur halli ríkissjóðs er að mestu leyti tilkominn vegna þessara innbyggðu þátta í tekju- og útgjaldaliðum hins opinbera. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda til mótvægis við áfallið sem fylgt hefur faraldrinum hafa ýmist falist í beinum útgjöldum ríkissjóðs, aðgerðum á tekjuhlið eða í veitingu ríkisábyrgða vegna lána fjármálastofnana. Stjórnvöld hafa í nokkrum áföngum gripið til tímabundinna mótvægisaðgerða í von um skammvinnan faraldur en hann hefur dregist á langinn og nauðsynlegt hefur verið að bæði framlengja og útvíkka aðgerðir. Auk þess hafa ný úrræði bæst við með tilheyrandi kostnaði og aukinni óvissu um ábyrgðir ríkissjóðs og framtíðarafkomu. Það sem af er ársins hafa verið samþykkt fern fjáraukalög fyrir 2020 með samtals 103,5 ma.kr. framlagi úr ríkissjóði. Frumvarp til fimmtu fjáraukalaga ársins var lagt fram á Alþingi þann 25. nóvember 2020, en það gerir ráð fyrir að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um samtals 65,1 ma.kr.

Fjármögnun hallarekstrar ríkissjóðs með lánsfé
Frá því faraldurinn skall á hefur ríkissjóður aðallega aflað sér lánsfjár á innlendum markaði. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hækkaði nafnverð útgefinna skuldabréfa ríkissjóðs (með áföllnum vöxtum og verðbótum) um 253,2 ma.kr. Hækkaði sjóðsstaðan yfir sama tíma um 83,9 ma.kr., sem kemur á móti hækkun lánanna. Við lok október 2020 skuldaði ríkissjóður 246,5 ma.kr lán í EUR og 12,9 ma.kr. lán í USD. Höfuðstóll lánanna hækkaði um 72,8 ma.kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins, sem er sambland af viðbótarláni, hækkun á gengi gjaldmiðla og afborgunum ársins. Á tímabilinu hækkaði fjármagnskostnaður um 46,4 ma.kr., en megin ástæðu hækkunarinnar má rekja til verðbótaþáttar langtímalána, sem hækkaði um 39 ma.kr.

Þann 1. apríl 2020 gerði fjármála- og efnahagsráðuneytið lánasamning við ÍL-sjóð. Í samningnum felst að ríkissjóður tekur að láni alla fjármuni sem ÍL-sjóður leggur inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Lánasamningurinn er ótímabundinn og er gagnkvæmur uppsagnarfrestur 15 dagar. Dregið var á þessa lánalínu í lok nóvember 2020 þegar skýrsla þessi var í lokavinnslu og 80 ma.kr. greiddir af ÍL-sjóði inn á bankareikning ríkissjóðs.

Tekjufall ríkisaðila og óvissa um horfur
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft verulega neikvæð áhrif á rekstur margra opinberra fyrirtækja á árinu, t.d. Isavia ohf., RÚV ohf. og Íslandspósts ohf. Þrátt fyrir að þau hafi eftir föngum leitast við að bregðast við faraldrinum með niðurskurði og hagræðingaraðgerðum í rekstri á eftir að koma í ljós hvaða áhrif tekjufall þeirra muni hafa á ríkissjóð. Isavia ohf. hefur þegar fengið 4 ma.kr. í nýtt hlutafé á þessu ári en telur sig þurfa 12-18 ma.kr. til viðbótar á næstu tveimur árum til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum svo tryggja megi viðspyrnu í starfsemi félagsins og samkeppnishæfa innviði til næstu ára. Auk ríkisbankanna getur hugsanlega komið til þess að ríkisaðilar eins og Byggðastofnun, Húsnæðissjóður og ÍL-sjóður (áður Íbúðalánasjóður) verði fyrir skakkaföllum vegna tapaðra útlána af völdum kórónuveirufaraldursins og áhrifa hans á íslenskt efnahagslíf.

Ályktanir Ríkisendurskoðunar
Ríkisendurskoðun hefur bent á að áður en faraldurinn skall á var afkoma af rekstri ríkissjóðs farin að dragast saman, að hluta vegna tekjusamdráttar en fyrst og fremst vegna aukinna útgjalda. Ríkisendurskoðun undirstrikar að mikil áskorun bíður stjórnvalda á komandi árum við að draga úr hallarekstri og greiða niður skuldir til að endurheimta jafnvægi í efnahagsmálum. Áformað er að styðja við íslenskt efnahagslíf í gegnum faraldurinn með hallarekstri, fjármögnuðum með lántökum. Komi til hækkunar á fjármögnunarkostnaði ríkisins getur vaxtabyrði ríkissjóðs fljótt takmarkað svigrúm til annarra útgjalda. Neikvæð gengisþróun og hækkandi skuldir geta þannig haft miklar afleiðingar fyrir afkomu ríkissjóðs á komandi árum, sérstaklega ef lánskjör kynnu að versna.

Telur Ríkisendurskoðun að áfram verði að leita allra leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni á útgjaldahlið ríkisfjármálanna samhliða mótvægisaðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum. Efnahagsúrræði stjórnvalda eru hugsuð sem tímabundnar ráðstafanir en ljóst má vera að þanþol ríkissjóðs er takmörkunum háð þegar fram í sækir. Ríkisendurskoðun áréttar að gæta verður festu og ábyrgðar í ríkisfjármálunum á komandi misserum til að tryggja ríkissjóði sjálfum viðspyrnu og sjálfbærni þegar efnahagslífið getur tekið við sér á ný

Lykiltölur

Fjármagnskostnaður jan-okt 2019
Fjármagnskostnaður jan-okt 2020
Breytingar á útgefnum skuldabréfum og sjóðsstöðu
Fjármagnskostnaður janúar - október