Tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða

21.02.2022

Með bréfi dagsettu 1. desember 2020 fór Alþingi þess á leit við Ríkisendurskoðun, með vísun í 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016, að embættið gerði úttekt á starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga.

Framangreind beiðni Alþings varðar mjög afmarkaðan þátt í tollframkvæmd og snýr þar af leiðandi ekkert að annarri tollframkvæmd, s.s. tolleftirliti með öðrum vörum en landbúnaðarafurðum eða ólöglegum innflutningi.

Tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

 1. Ráðast þarf í endurnýjun tölvukerfa tollasviðs Skattsins
  Ríkisendurskoðun bendir á að gríðarleg sóknarfæri eru fyrir Skattinn í uppfærslu á tölvukerfi tollasviðs. Samanlagður fjöldi innog útflutningsskýrslna hefur nálgast tvær milljónir á ári undanfarin ár og því er til mikils að vinna fyrir bæði notendur þjónustunnar sem og tollayfirvöld sjálf að auka til muna skilvirkni og sjálfvirkni í kerfinu.
   
 2. Setja verður gæði gagna í forgang
  Ríkisendurskoðun telur að setja þurfi gæði gagna og áskoranir þeim tengdum í sem mestan forgang. Áreiðanleiki og nákvæmni tollskýrslna er enn verulegt vandamál í innflutningi þrátt fyrir það sem áunnist hefur á undanförnum árum. Skatturinn þarf þannig að tryggja betri gæði gagna af hálfu innflutningsaðila, bæði með fræðslu og samstarfi en einnig auknu aðhaldi og eftirliti. Þá þurfa þau kerfi sem Skatturinn vinnur með að geta talast við svo úrvinnsla allra upplýsinga verði áreiðanleg, árangursrík, hagkvæm og skilvirk.
   
 3. Endurskipuleggja og efla þarf tolleftirlit og tollendurskoðun
  Það er álit Ríkisendurskoðunar að Skatturinn hafi ekki unnið fullnægjandi áhættumat vegna innflutnings landbúnaðarvara í ljósi takmarkaðs tolleftirlits. Bendir Ríkisendurskoðun á að endurskoðun á slíkum innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Á undanförum árum hefur verið dregið úr getu endurskoðunardeildar til að fást við stærri og flóknari mál sem hefur hindrað að tollyfirvöld geti með forvirkum hætti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Ríkisendurskoðun telur því að endurskipuleggja og efla þurfi tollasvið Skattsins svo unnt sé að sinna lögbundnu hlutverki og verkefnum af fullum krafti.
   
 4. Vöruskoðun landbúnaðarafurða verði gerð víðtækari og að viðvarandi verkefni tollasviðs Skattsins
  Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi vöruskoðun á landbúnaðarvörum almennt og að slíkar skoðanir verði viðvarandi verkefni tollyfirvalda samhliða reglubundnu tolleftirliti. Landbúnaðarvörur hafa sjaldan sætt vöruskoðun þar sem oft er um að ræða viðkvæmar vörur sem þarfnast skjótrar afgreiðslu. Hingað til hefur því vöruskoðun einungis verið framkvæmd sé um að ræða sterkan grun um brot. Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi verklag við vöruskoðun svo það taki tillit til eðli varanna hverju sinni í stað þess að leiða mögulega til skerts eftirlits.
   
 5. Yfirstjórn tollamála þarf að tryggja samræmda tollframkvæmd og leysa úr álitamálum
  Ríkisendurskoðun telur að tryggja þurfi að reglulega sé fjallað um álitamál í tollframkvæmd á fundum framkvæmdastjórnar svo gagnsæi og fyrirsjáanleiki ríki um úrlausn þeirra og sjónarmið séu samræmd með það fyrir augum að tryggja samkvæmni í allri framkvæmd. Ríkisendurskoðun hefur í úttekt sinni ítrekað rekist á fagleg álitamál sem uppi hafa verið innan tollasviðs Skattsins að undanförnu sem ekki hefur verið leyst úr með viðhlítandi hætti, hvorki með umræðum innan embættisins né samstarfi á alþjóðavettvangi. Varða þau m.a. tollflokkun á vörum eins og „jurtaosti“ þar sem ólík sjónarmið innan Skattsins hafa ekki verið samræmd og ekki leitað til erlendra samstarfsaðila og alþjóðastofnana til leiðsagnar og samræmis svo sem brýnt er.

Auka má skilvirkni og sjálfvirkni í tollafgreiðslu
Hraðar framfarir í upplýsingatæknimálum og stórauknir vöruflutningar kalla á nauðsynlega uppfærslu á tölvukerfum tollasviðs Skattsins. Auka má skilvirkni til muna með uppfærðu tölvukerfi tollafgreiðslu og þjóna þannig bæði notendum þjónustunnar sem og tollayfirvöldum sjálfum. Heildstæð tölvuvæðing tollafgreiðslu gefur jafnframt stóraukna möguleika á nánari greiningarvinnu

Alvarlegir annmarkar við framkvæmd tollendurskoðunar
Þriggja manna endurskoðunardeild tollasviðs Skattsins er of fáliðuð til þess að geta staðið undir hlutverki sínu, sérstaklega eins og það mótast af rafrænni tollafgreiðslu. Innri endurskoðun Tollstjóra (nú Skatturinn) benti á ýmsa annmarka á starfsemi deildarinnar árið 2013 en nefna má að verklagsreglur um hvernig staðið skuli að tollendurskoðun voru þá ekki til, endurskoðunaráætlun deildarinnar þótti of almennt orðuð og í hana vantaði mælanleg markmið og ekki var til staðar nothæf áhættugreining. Nú, átta árum síðar, eiga margir af þessum sömu annmörkum enn við í megindráttum.

Brotalamir eru á tolleftirliti/vöruskoðun landbúnaðarvara
Þrátt fyrir átak í vöruskoðun landbúnaðarvara síðla árs 2020 er enn of lítið um slíkar skoðanir. Viðkvæmir eiginleikar landbúnaðarvara geta torveldað vöruskoðun að því leyti að í mörgum tilvikum þola slíkar vörur síður lengdan afgreiðslutíma. Hins vegar er mikilvægt að víðtæk vöruskoðun sé ástunduð samhliða reglubundnu tolleftirliti þegar kemur að landbúnaðarvörum, enda mikilvægir hagsmunir í húfi og oft um háar fjárhæðir að tefla fyrir ríkissjóð ef vörur eru rangt tollflokkaðar.

Misræmi er í hagtölum Evrópusambandsins og Hagstofu Íslands
Í ljós hefur komið allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara. Þó er ekki um að ræða séríslenskt fyrirbrigði og fyrir þessu misræmi geta í einhverjum tilvikum legið nokkrar málefnalegar ástæður. Enn er of snemmt að draga af þessu víðtækar ályktanir og bíða þarf niðurstaðna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra á frekari greiningu á þessu misræmi. Það virðist bæði nokkuð almennt og því hefur reynst erfitt að henda reiður á af hverju það stafar

Lykiltölur

Fjöldi starfsmanna á tollasviði Skattsins m.v. 1. desember 2020
Þróun inn- og útflutningsskýrslna