21.02.2022
Með bréfi dagsettu 1. desember 2020 fór Alþingi þess á leit við Ríkisendurskoðun, með vísun í 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016, að embættið gerði úttekt á starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga.
Framangreind beiðni Alþings varðar mjög afmarkaðan þátt í tollframkvæmd og snýr þar af leiðandi ekkert að annarri tollframkvæmd, s.s. tolleftirliti með öðrum vörum en landbúnaðarafurðum eða ólöglegum innflutningi.
Auka má skilvirkni og sjálfvirkni í tollafgreiðslu
Hraðar framfarir í upplýsingatæknimálum og stórauknir vöruflutningar kalla á nauðsynlega uppfærslu á tölvukerfum tollasviðs Skattsins. Auka má skilvirkni til muna með uppfærðu tölvukerfi tollafgreiðslu og þjóna þannig bæði notendum þjónustunnar sem og tollayfirvöldum sjálfum. Heildstæð tölvuvæðing tollafgreiðslu gefur jafnframt stóraukna möguleika á nánari greiningarvinnu
Alvarlegir annmarkar við framkvæmd tollendurskoðunar
Þriggja manna endurskoðunardeild tollasviðs Skattsins er of fáliðuð til þess að geta staðið undir hlutverki sínu, sérstaklega eins og það mótast af rafrænni tollafgreiðslu. Innri endurskoðun Tollstjóra (nú Skatturinn) benti á ýmsa annmarka á starfsemi deildarinnar árið 2013 en nefna má að verklagsreglur um hvernig staðið skuli að tollendurskoðun voru þá ekki til, endurskoðunaráætlun deildarinnar þótti of almennt orðuð og í hana vantaði mælanleg markmið og ekki var til staðar nothæf áhættugreining. Nú, átta árum síðar, eiga margir af þessum sömu annmörkum enn við í megindráttum.
Brotalamir eru á tolleftirliti/vöruskoðun landbúnaðarvara
Þrátt fyrir átak í vöruskoðun landbúnaðarvara síðla árs 2020 er enn of lítið um slíkar skoðanir. Viðkvæmir eiginleikar landbúnaðarvara geta torveldað vöruskoðun að því leyti að í mörgum tilvikum þola slíkar vörur síður lengdan afgreiðslutíma. Hins vegar er mikilvægt að víðtæk vöruskoðun sé ástunduð samhliða reglubundnu tolleftirliti þegar kemur að landbúnaðarvörum, enda mikilvægir hagsmunir í húfi og oft um háar fjárhæðir að tefla fyrir ríkissjóð ef vörur eru rangt tollflokkaðar.
Misræmi er í hagtölum Evrópusambandsins og Hagstofu Íslands
Í ljós hefur komið allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara. Þó er ekki um að ræða séríslenskt fyrirbrigði og fyrir þessu misræmi geta í einhverjum tilvikum legið nokkrar málefnalegar ástæður. Enn er of snemmt að draga af þessu víðtækar ályktanir og bíða þarf niðurstaðna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra á frekari greiningu á þessu misræmi. Það virðist bæði nokkuð almennt og því hefur reynst erfitt að henda reiður á af hverju það stafar