22.02.2022
Ríkisendurskoðun ákvað síðla árs 2020 að hefja stjórnsýsluúttekt á stærðarhagkvæmni stofnana ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands. Tímamörk úttektarinnar miðuðust við hvernig ráðuneytisskipan Stjórnarráðsins leit út um áramótin 2020‒21. Tilkynnt var um úttektina í desember 2020.
Úttektin var unnin að frumkvæði ríkiendurskoðanda og á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
Stofnanir ríkisins - fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni (pdf)
Skýrslur um sameiningar á undanförum áratugum eru margar
Þrátt fyrir fjölda opinberra skýrslna um aukna samvinnu og jafnvel sameiningar ríkisstofnana eru þær enn töluvert margar á Íslandi. Margar eru litlar og er liðlega helmingur með færri en 50 starfsmenn. Nokkur árangur hefur náðst í fækkun ríkisstofnana á síðasta aldarfjórðungi og fækkaði þeim um 34% á tímabilinu 1998–2021. Þess ber að geta að sú fækkun er aðeins að hluta til vegna sameininga. Flutningur verkefna til sveitarfélaga, t.a.m. grunnskólans, og hlutafjárvæðing vegur þungt í þeirri þróun.
Enn eru tækifæri til sameiningar og samvinnu
Þegar rýnt er í stofnanaflóru ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands skera tvö ráðuneyti sig úr hvað varðar fjölda undirstofnana. Um er að ræða mennta- og menningarmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Ríflega helmingur allra ríkisstofnana heyrir undir þau. Dómsmálaráðuneyti hefur unnið töluvert í sameiningum sinna stofnana, t.d. með fækkun sýslumannsembætta og aðskilnaði þeirra frá lögreglustjóraembættum, en minna hefur farið fyrir sameiningum á vegum menntaog menningarmálaráðuneytis.
Samningar við sjálfseignarstofnanir og félög
Fjöldi ríkisstofnana segir ekki alla söguna því mörg ráðuneyti eru í samningssambandi við sjálfseignarstofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir t.a.m. árlega um 25 ma.kr. á grundvelli slíkra samninga sem eru nú 100 talsins (2021). Slíkur fjöldi þyngir verulega eftirlitshlutverk ráðuneytisins.
Ríkisendurskoðandi vekur sérstaka athygli á
Afar mikilvægt er að undirbúa sameiningar af kostgæfni eigi þær að skila tilætluðum árangri. Brýnt er að gera frumathugun/fýsileikakönnun og skilgreina markmið með sameiningu. Efna þarf til víðtæks samráðs og gera ítarlega samrunaáætlun. Þá þarf að virkja starfsfólk þegar sameiningu er hrint í framkvæmd og meta árangur af sameiningu.