Stofnanir ríkisins - fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni

22.02.2022

Ríkisendurskoðun ákvað síðla árs 2020 að hefja stjórnsýsluúttekt á stærðarhagkvæmni stofnana ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands. Tímamörk úttektarinnar miðuðust við hvernig ráðuneytisskipan Stjórnarráðsins leit út um áramótin 2020‒21. Tilkynnt var um úttektina í desember 2020.

Úttektin var unnin að frumkvæði ríkiendurskoðanda og á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Stofnanir ríkisins - fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

  1. Mikilvægt er að stjórnvöld taki afstöðu til framkominna tillagna
    Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf og jafnvel sameiningu ríkisstofnana frá miðjum 10. áratugi síðustu aldar. Frá árinu 2013 hafa til að mynda þrír starfshópar á vegum stjórnvalda unnið tillögur sem ganga út á einföldun stofnanakerfis ríkisins en þróunin í þá átt hefur verið hæg.
     
  2. Fækka þarf undirstofnunum mennta- og menningarmálaráðuneytis
    Þriðjungur stofnana Stjórnarráðsins heyrir undir ráðuneyti mennta- og menn-ingarmála. Margar þeirra eru smáar. Mikilvægt er að skoða fjölda og skipulag þeirra með tilliti til einföldunar, hagræðingar og skilvirkni. Ætla má að fjöldi smárra stofnana sé óhagstæður í rekstrarlegu og faglegu tilliti en líkur eru einnig á að einhverjar þeirra gætu hæglega rúmast innan stærri skipulagsheilda hins opinbera.
     
  3. Skoða þarf möguleika á aukinni samvinnu
    kki er alltaf fýsilegur kostur að sameina stofnanir en þá má líta til sóknarfæra sem felast í aukinni samvinnu. Líta má til staðsetningar og eðli starfseminnar með það fyrir augum að kanna hvort samvinnu- og samstarfsgrundvöllur sé fyrir hendi. Ríkisendurskoðun telur að fjármála- og efnahagsráðuneyti eigi að leiða slíka vinnu, m.a. með því að efla aðgengi að miðlægri stoðþjónustu. Hugsanleg leið að þessu markmiði væri að gera þjónustukönnun á vegum ráðuneytisins meðal almennings og atvinnulífs þar sem spurt yrði hvernig bæta má og auka þjónustu ráðuneytanna.
     
  4. Tryggja þarf gott eftirlit þegar undirstofnanir og viðföng eru fleiri
    Mikilvægt er að ráðuneyti hafi á hverjum tíma góða yfirsýn um undirstofnanir sínar, ekki síst til að geta sinnt bæði eftirlitsskyldu sinni og almennu stjórnsýslu-eftirliti. Eftir því sem undirstofnunum fjölgar þrengjast möguleikar ráðuneyta til að sinna þessum skyldum sínum. Því er mikilvægt að fjöldi undirstofnana og viðfanga hvers ráðuneytis, þar með talið samningar við sjálfseignarstofnanir og félög, verði ekki of mikill hverju sinni.

Skýrslur um sameiningar á undanförum áratugum eru margar
Þrátt fyrir fjölda opinberra skýrslna um aukna samvinnu og jafnvel sameiningar ríkisstofnana eru þær enn töluvert margar á Íslandi. Margar eru litlar og er liðlega helmingur með færri en 50 starfsmenn. Nokkur árangur hefur náðst í fækkun ríkisstofnana á síðasta aldarfjórðungi og fækkaði þeim um 34% á tímabilinu 1998–2021. Þess ber að geta að sú fækkun er aðeins að hluta til vegna sameininga. Flutningur verkefna til sveitarfélaga, t.a.m. grunnskólans, og hlutafjárvæðing vegur þungt í þeirri þróun.

Enn eru tækifæri til sameiningar og samvinnu
Þegar rýnt er í stofnanaflóru ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands skera tvö ráðuneyti sig úr hvað varðar fjölda undirstofnana. Um er að ræða mennta- og menningarmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Ríflega helmingur allra ríkisstofnana heyrir undir þau. Dómsmálaráðuneyti hefur unnið töluvert í sameiningum sinna stofnana, t.d. með fækkun sýslumannsembætta og aðskilnaði þeirra frá  lögreglustjóraembættum, en minna hefur farið fyrir sameiningum á vegum menntaog menningarmálaráðuneytis.

Samningar við sjálfseignarstofnanir og félög
Fjöldi ríkisstofnana segir ekki alla söguna því mörg ráðuneyti eru í samningssambandi við sjálfseignarstofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir t.a.m. árlega um 25 ma.kr. á grundvelli slíkra samninga sem eru nú 100 talsins (2021). Slíkur fjöldi þyngir verulega eftirlitshlutverk ráðuneytisins.

Ríkisendurskoðandi vekur sérstaka athygli á
Afar mikilvægt er að undirbúa sameiningar af kostgæfni eigi þær að skila tilætluðum árangri. Brýnt er að gera frumathugun/fýsileikakönnun og skilgreina markmið með sameiningu. Efna þarf til víðtæks samráðs og gera ítarlega samrunaáætlun. Þá þarf að virkja starfsfólk þegar sameiningu er hrint í framkvæmd og meta árangur af sameiningu.

Lykiltölur

Stærð ríkisstofnana út frá starfsmannafjölda
Staðsetning stofnana
Fjöldi undirstofnana hvers ráðuneytis